Skoska þingið vill annað þjóðaratkvæði

Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skotlands, í skoska þinginu í dag.
Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skotlands, í skoska þinginu í dag. AFP

Skoska þingið greiddi atkvæði í dag með stuðningi við ósk Nicolu Sturgeon, fyrsta ráðherra Skotlands, um að fram fari önnur þjóðaratkvæðagreiðsla um sjálfstæði landsins frá breska konungdæminu. Stuðningurinn var samþykktur með 69 atkvæðum gegn 59.

Eftir atkvæðagreiðsluna, sem var fyrst og fremst táknræn, sagði Sturgeon að hún vonaði að breska ríkisstjórnin virti vilja skoska þingsins. Hún hyggst nú fara formlega fram á að þjóðaratkvæði fari fram en síðast fór slík atkvæðagreiðsla fram 2014 þar sem meirihluti Skota samþykkti að vera áfram hluti af breska konungdæminu. Sturgeon og flokkur hennar, Skoski þjóðarflokkurinn, telja að forsendur séu breyttar þar sem Bretland sé á leið úr Evrópusambandinu sem meirihluti Skota hafi verið andvígur.

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hefur þegar sagt að annað þjóðaratkvæði um sjálfstæði Skotlands sé ekki tímabært en samþykki breskra stjórnvalda þarf til þess að slík atkvæðagreiðsla fari fram. Áður en þjóðaratkvæði geti farið fram þurfi niðurstaða viðræðna Bretlands við Evrópusambandið að liggja fyrir og reynsla að vera komin á hana svo skoskir kjósendur viti nákvæmlega hvaða kostum þeir standi frammi fyrir.

Nýjustu skoðanakannanir sýna mikinn stuðning við sjálfstætt Skotland en ekki meirihlutastuðning. Þá hafa kannanir sýnt meirihluta andvígan því að haldið verði annað þjóðaratkvæði um sjálfstæði landsins.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert