Asni ber bóluefni til barnanna

UNICEF er í bólusetningarherferð í Jemen. Það er ekki einfalt …
UNICEF er í bólusetningarherferð í Jemen. Það er ekki einfalt mál að koma bóluefnunum til fólksins, fjölmargar hættur eru á leiðinni. Ljósmynd/UNICEF

Að bólusetja börn fyrir lífshættulegum sjúkdómum mitt í hörðum átökum getur verið áskorun. Á síðustu vikum hafa heilbrigðisstarfsmenn með bóluefni við lömunarveiki að vopni, farið víða um Jemen, yfir víglínur stríðandi fylkinga, um hrjóstrugt landslag, niður í dali og yfir fjöll, til að ná til barna sem mörg hver eru á vergangi vegna borgarastríðsins sem þar hefur geisað í tvö ár. Ýmsar aðrar hindranir verða á vegi þeirra vegna stríðsins, s.s. vegatálmar, eldsneytisskortur og rafmagnsleysi svo fátt eitt sé nefnt.

Í vikunni kom út skýrsla UNICEF um Jemen. Skýrsl­an heit­ir: Dottið í gegn­um gluf­urn­ar – börn­in í Jemen. Í henni er lýst marg­vís­leg­um af­leiðing­um stríðsins á líf og heilsu fólks­ins í land­inu.

Fjörutíu þúsund manns hafa tekið þátt í bólusetningarherferðinni í ár og hafa um fimm milljónir barna yngri en fimm ára verið bólusett. Til að ná því takmarki hefur þurft að ganga hús úr húsi.

Ahmed Ahmed Abdullah er í hópi þessa fólks. Hann fer um ásamt þremur öðrum til að bólusetja börn norður af höfuðborginni Sanaa. En það er ekki einfalt verkefni að komast á áfangastað. Þorpin sem þarf að sinna eru handan fjalla sem eru erfið yfirferðar. Þangað liggja engir vegir. Ahmed og félagar hans hafa því því þurft að klífa fjöllin til að ná til barnanna.

Asnar eru þarfir þjónar mannfólksins í Jemen. Samgöngur eru allar …
Asnar eru þarfir þjónar mannfólksins í Jemen. Samgöngur eru allar farnar úr skorðum enda eldsneytisskortur. UNICEF notar því asna til að koma bóluefnum til barna á afskekktum svæðum. AFP

Sá fimmti í hópnum er ómetanlegur. Það er asni. Þetta þrjóska en duglega dýr skiptir sköpum þegar kemur að því að bæta líf barnanna í Jemen. Á baki sínu ber hann hylkin sem halda bóluefninu köldu svo það skemmist ekki. Þetta er eina leiðin til að koma efnunum til fólksins. Rafmagnslaust er nánast alls staðar og eldsneyti er munaðarvara sem fáir hafa aðgang að.

Eftir að bóluefnunum hefur verið komið fyrir á baki asnans heldur hópurinn af stað upp í fjöllin. Það er gríðarlega heitt í veðri og þegar ferðalagið er hálfnað þarf hópurinn að taka sér hvíld. Ahmed notar tækifærið til að brýna mikilvægi verkefnisins fyrir félögum sínum.

„Þegar við erum tilbúin að halda áfram verðum við að athuga hvort að birgðirnar eru ekki enn fastar vel á baki asnans. Undirbúið ykkur fyrir að klifra. Þegar við komum í þorpin þurfum við að skrifa niður hversu mörg börn eru í hverju húsi. Ef ekkert barn er í húsinu þarf að skrifa það líka hjá sér,“ segir hann.

Loks kemst hópurinn til þorpsins Al’anaf. Börnin og fjölskyldur þeirra hafa beðið hans með óþreyju en tilkynnt var um fyrirhugaða komu þeirra í útvarpinu.

Þrátt fyrir að vera örþreyttir hefjast mennirnir handa við að gefa bóluefnið. Hvert barn undir fimm ára aldri fær tvo dropa í munninn. Börn sem eru 6-11 ára fá einnig A vítamín til að styrkja ónæmiskerfið.

Aðeins tveir dropar af lyfi duga til að koma í …
Aðeins tveir dropar af lyfi duga til að koma í veg fyrir lömunarveikina. Vandinn fellst hins vegar í því að koma bóluefninu til barnanna með skipulegum hætti. Ljósmynd/UNICEF

„Bóluefnið mun vernda barn þitt gegn lömunarveiki,“ segir Ahmed við foreldrana. „Ef barn fær lömunarveiki þá lamast það og það þarf að bera það út um allt, meira að segja á klósettið. Þessir tveir dropar vernda barnið ykkar.“

Á hverjum degi fer Ahmed með teymið sitt inn á 20-30 heimili á hverjum degi á meðan herferðin stendur. „Við ætlum ekki að undanskilja eitt einasta barn.“

Börnin í Jemen eru orðin mjög berskjölduð fyrir sjúkdómum, vannæringu og átökum. Hungursneyð vofir yfir þjóðinni og alvarleg vannæring hrjáir mörg börn. Um helmingur allra sjúkrastofnana í landinu eru  óstarfhæfar og heilbrigðiskerfið í heild er að hruni komið.

Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, hefur ásamt samstarfaðilum í samvinnu við heilbrigðisyfirvöld aukið við stuðning sinn svo að bólusetja meegi fleiri börn og gefa þeim lyf við algengum barnasjúkdómum, s.s. niðurgangi og öndunarfærasýkingum.

Slík hjálp skiptir máli en er engin lausn til langframa, samkvæmt upplýsingum UNICEF. Ekki er hægt að sinna heilbrigðisþjónustu heillar þjóðar með þessum hætti. Því er gríðarlega mikilvægt að mati UNICEF að heilbrigðiskerfið verði byggt upp að nýju. En fyrst og fremst er það krafa samtakanna að endir verði bundinn á stríðsátökin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert