Danskt uppboðshús seldi stolið verk

Sjálfsmynd af Carl Vilhelm Holsøe. Þetta er ekki verkið sem …
Sjálfsmynd af Carl Vilhelm Holsøe. Þetta er ekki verkið sem var stolið. Wikipedia

Danska uppboðshúsið Lauritz seldi óafvitandi málverk sem er á lista yfir stolin verk í fyrra. Verkið, olíumálverk eftir danska listamanninn Carl Vilhelm Holsøe, var selt á vef uppboðshússins á 74 þúsund danskar krónur, 1,2 milljónir íslenskra króna. Enginn hjá Lauritz gerði sér grein fyrir því að verkið var skráð sem stolið verk.

Málverkinu var stolið ásamt sjö öðrum í úthverfi Kolding árið 2000 og var það skráð hjá Art Loss Register í London, en þar eru skráð verk sem hefur verið stolið, segir í frétt Politiken.

Nina Neuhaus, starfsmaður Art Loss Register, segir í samtali við Politiken að ef danska uppboðshúsið hefði verið með áskrift að gagnabanka Art Loss Register hefðu starfsmenn þess fundið verkið með einfaldri leit. Með því hefði það komist hjá því að selja stolið verk.

Flest alþjóðleg uppboðshús eru með áskrift að gagnabankanum ólíkt Lauritz og öðrum dönskum uppboðshúsum. Framkvæmdastjóri Lauritz, Mette Jensen, segir að fyrirtækið mæli með því við sérfræðinga sína að kanna alla möguleika varðandi stolin verk, þar á meðal Art Loss Register, Find Stolen Art og Stolen Art FBI, en það hafi ekki verið gert í þessu tilviki.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem stolin verk hafa verið seld fyrir mistök á uppboði í Danmörku. Meðal annars seldi Lauritz árið 2011 stolið málverk eftir danska listamanninn Anders Moseholm og í fyrra var skráður á uppboði hjá fyrirtækinu hluti líkkistu sem hafði verið stolið af safninu í Esbjerg árið 1977.

Frétt Politiken

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert