Fundu mann í maga slöngu

Búrma-kyrkislanga. Kyrkislanga af Asíuætt gleypti manninn í heilu lagi, en …
Búrma-kyrkislanga. Kyrkislanga af Asíuætt gleypti manninn í heilu lagi, en hann hafði horfið á leið til vinnu á plantekru fjölskyldu sinnar í Indónesíu. ROBERT SULLIVAN

Indónesíska lögreglan hefur greint frá því að lík manns sem saknað var hafi fundist í maga slöngu. Maðurinn, sem nefndist Akbar og var 25 ára gamall, hvarf á sunnudag á indónesísku eyjunni Sulawesi á leið sinni til vinnu á plantekru fjölskyldunnar.

Á meðan leit stóð yfir að manninum fannst verulega stór slanga, sem grunur vaknaði um að hefði gleypt Akbar. Slangan, sem var kyrkislanga af Asíuætt, var sjö metra löng og fannst lík hans inni í henni þegar hún var skorin upp.

Kyrkilslöngur af ættinni Python reticulatus eru með lengstu skriðdýrum í heimi og kæfa fórnarlömb sín áður en þau gleypa þau í heilu lagi. Kyrkislöngur drepa sjaldan menn og gleypa, þó að stöku sinni berist fréttir af því að þær hafi gleypt börn eða dýr.

Mashura, talsmaður lögreglunnar á vesturhluta Sulawesi, sagði BBC að þorpsbúar hefðu tilkynnt um hvarf Akbars þegar hans hafði verið saknað í sólarhring. Í kjölfarið var hafist handa við að leita að honum og fannst slangan þá í nágrenni plantekru fjölskyldunnar.

„Þeir fundu hann ekki, en þorpsbúar sáu hreyfingarlausa slöngu í skurði. Þeir fylltust grunsemdum um að slangan innihéldi Akbar. Þegar þeir skáru hana upp sáu þeir Akbar inni í slöngunni,“ sagði Mashura, sem líkt og margir Indónesar notar aðeins eitt nafn.

Nia Kurniawan, við Brawijaya-háskólann í Indónesíu, sagði kyrkislöngur af þessari stærð leita uppi stóra bráð á borð við villisvín eða villta hunda.

Þær forðuðust venjulega mannabyggð, en litu gjarnan á pálmatrjáaplantekrur sem góðar veiðilendur þar sem þangað sæktu venjulega dýr á borð við villisvín, apa og hunda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert