Minnir á stríðssvæði

AFP

Víða er enn rafmagnslaust í norðurhluta Ástralíu eftir að Debbie fór þar yfir á ógnarhraða. Skútur þeyttust upp á land og þök rifnuðu af húsum. Íbúar segja að bæir meðfram ströndinni minni helst á stríðssvæði. 

AFP

Stormurinn fór yfir strönd Queensland, milli Bowen og Airlie Beach í gær, og er eins og sprengju hafi verið varpað á marga af vinsælustu ferðamannastöðum svæðisins.

Debbie er ekki lengur fellibylur heldur hitabeltisstormur en enn er varað við roki og mikilli úrkomu. Veðurstofan spáir því að fjölmargar ár muni flæða yfir bakka sína næstu daga enda mælist úrkoman á síðustu tveimur sólarhringum 1.000 mm. Það er jafnmikið og venjulega á hálfu ári á þessu svæði.

AFP

Vegir að bæjunum Bowen, Airlie Beach og Proserpine eru ófærir og um 60 þúsund heimili án rafmagns. Víða er ekki hægt að ná neinu fjarskiptasambandi og því ekki vitað hversu mikil eyðileggingin er. Að sögn lögreglu verður reynt að sigla á þau svæði sem verst urðu úti.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert