Lifði á regnvatni og mosa í tvo mánuði

Omongos við komuna á alþjóðaflugvöllinn í Manila í gærdag.
Omongos við komuna á alþjóðaflugvöllinn í Manila í gærdag. AFP

21 árs sjómaður frá Filippseyjum horfði á frænda sinn veslast upp og deyja og þurfti sjálfur að lifa í tæpa tvo mánuði á regnvatni og mosa, sem óx á litla bátnum hans, þangað til honum var bjargað fyrr í þessum mánuði.

Maðurinn, Rolando Omongos, flaug heim til Filippseyja í gær eftir að hafa barist við hungur, þorsta og örvæntingu í næstum tvo mánuði um borð í pínulitlum báti, sem rak alla leið til Papúa Nýju-Gíneu.

Á endanum var honum bjargað af skipverjum japansks fiskibáts, samkvæmt umfjöllun Guardian.

„Ég grét án afláts þegar mér var loksins bjargað. Ég var of veikburða til að standa upp og þeir þurftu að bera mig,“ sagði Omongos við blaðamenn í gær.

„Ég missti aldrei vonina. Ég var alltaf að biðja.“
„Ég missti aldrei vonina. Ég var alltaf að biðja.“ AFP

Lögðu af stað 21. desember

Hann sagðist hafa lifað á regnvatni og mosa sem óx utan á bátnum, og kælt sig reglulega með því að dýfa sér ofan í vatnið.

Frændi hans sem var 31 árs, Reniel Omongos, var um borð í öðrum bát. Lést hann eftir að þeir höfðu verið saman á reki í mánuð. Telur eftirlifandinn að hungur og skjólleysi hafi orðið honum að bana.

Festi hann lík frænda síns við bátinn í nokkra daga, en lét það sökkva ofan í sjóinn þegar það fór að lykta.

Þeir lögðu af stað þann 21. desember í fylgd með fleiri sjómönnum. Óveður aðskildi síðan frændurna frá hópnum þann 10. janúar og fimm dögum síðar hafði eldsneyti þeirra klárast.

„Ég missti aldrei vonina. Ég var alltaf að biðja,“ sagði Omongos. „Ég sagði við sjálfan mig, að minnsta kosti annar okkar verður að komast aftur heim.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert