Lík í skiptum fyrir 9 ríkisborgara

Kim Jong-Nam var myrtur á flugvellinum í Kuala Lumpur.
Kim Jong-Nam var myrtur á flugvellinum í Kuala Lumpur. AFP

Lík Kim Jong-Nam verður sent til Norður-Kóreu og níu malasískum ríkisborgurum í Pyongyang verður heimilað að yfirgefa landið, segir forsætisráðherra Malasíu, Najib Razak. Að sama skapi fá ríkisborgarar Norður-Kóreu að snúa aftur heim frá Malasíu. 

Kim, 45 ára gamall hálfbróðir leiðtoga Norður-Kóreu, var myrtur á alþjóðaflugvellinum í Kuala Lumpur 13. febrúar. Morðvopnið var eitur sem er á lista Sameinuðu þjóðanna yfir gjöreyðingarvopn.

Najib segir að í kjölfar þess að krufningu er að fullu lokið og beiðni fjölskyldunnar um að líkið verði sent til N-Kóreu var ákveðið að verða við þeirri beiðni. Á sama tíma hafi yfirvöld í N-Kóreu veitt 9 malasískum ríkisborgurum heimild til að yfirgefa landið en þeir voru kyrrsettir í N-Kóreu eftir að samskipti ríkjanna versnuðu í kjölfar morðrannsóknarinnar. Fólkið er á leiðinni til Malasíu og er væntanlegt þangað innan tíðar. 

Hann segist hafa miklar áhyggjur af málinu og enn sé unnið að rannsókn þess. Tryggja verði öryggi malasískra ríkisborgara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert