Saksóknari handtekinn í fíkniefnamáli

AFP

Bandaríska alríkislögreglan hefur handtekið mexíkóskan saksóknara sem er grunaður um aðild að glæpahring sem framleiddi og seldi ólögleg eiturlyf, svo sem heróín og kókaín, til Bandaríkjanna.

Edgar Veytia, ríkissaksóknari í Nayarit-ríki, var handtekinn á landamærum Bandaríkjanna í San Diego. Hann er í haldi á grundvelli handtökuskipunar frá dómstól í New York-ríki.

Veytia var handtekinn á brúnni milli San Diego og Tijuana-flugvallar. Ríkisstjóri Nayarit, Roberto Sandoval, segir að handtakan hafi komið eins og þruma úr heiðskíru lofti. Ekki hafi verið tiltekið nákvæmlega á hvaða grundvelli saksóknarinn var handtekinn en það verði væntanlega upplýst í dag.

Samkvæmt upplýsingum AFP er Veytia sakaður um að hafa tekið þátt í framleiðslu og sölu á heróíni, kókaíni, metamfetamíni og maríjúana, samsæri um framleiðslu og samsæri um sölu á eiturlyfjunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert