Líkti flóttamannabúðum við fangabúðir

Frans páfi.
Frans páfi. AFP

Frans páfi líkti sumum flóttamannabúðum í Evrópu við fangabúðir þegar hann minntist kristinnar konu sem var myrt vegna trúar sinnar fyrir framan eiginmann sinn sem er múslimi.

 „Þessar flóttamannabúðir – svo margar þeirra eru fangabúðir, stútfullar af fólki...vegna þess að alþjóðlegar samþykktir virðast vera mikilvægari en mannréttindi,“ sagði Frans.

Hann sagði að það eigi að minnast konunnar sem var myrt sem píslarvotti.

Páfinn greindi frá því að hann hefði hitt konuna og eiginmann hennar, ásamt þremur börnum þeirra, þegar hann heimsótti flóttamannabúðir á grísku eyjunni Lesbos í fyrra.

„Ég veit ekki hvað varð um hann, hvort honum hafi tekist að komast út úr fangabúðunum sínum og á annan stað,“ sagði hann.

„Hann leit á mig og sagði: „Faðir, ég er múslimi og eiginkonan mín er kristin. Við urðum fyrir aðkasti í heimalandi okkar...þeir sáu krossinn hennar og sögðu henni að henda honum frá sér. Þegar hún neitaði skáru þeir hana á háls fyrir framan mig. Við elskuðum hvort annað mjög mikið“.“

Frans greindi ekki frá þjóðerni mannsins en flestir flóttamennirnir sem komu til Lesbos á meðan á heimsókn páfans stóð voru frá Sýrlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert