Hóta að granda flugmóðurskipinu

USS Carl Vinson, flugmóðurskip Bandaríkjanna.
USS Carl Vinson, flugmóðurskip Bandaríkjanna. AFP

Norðurkóresk yfirvöld heita því að sökkva flugmóðurskipi Bandaríkjanna, USS Carl Vinson, til að sýna hernaðarlegan styrk landsins. Skipið er nú á leið að Kóreuskaga ásamt japönskum tundurspillum, en flotinn hyggst stunda þar æfingar, þangað sem hann er væntanlegur innan fárra daga.

Í ríkisdagblaðinu Rodong Sinmun segir að herinn sé reiðubúinn að granda skipinu í einni árás, en Norður-Kórea fagnar því á þriðjudag að 85 ár eru liðin frá stofnun hers landsins og hefur ríkið yfirleitt notað stórafmælin til að prófa vopnin. Reuters greinir frá.

Norður-Kórea hefur gert fimm kjarnorkutilraunir, tvær á síðasta ári, og er að vinna að langdrægum flaugum sem gætu náð til Bandaríkjanna. Hafa Norður-Kóreumenn nokkrum sinnum gert tilraunir með langdrægar flaugar í óþökk Sameinuðu þjóðanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert