Macron sagður leiða í Frakklandi

Emmanuel Macron veifar stuðningsmönnum sínum eftir að hafa greitt atkvæði.
Emmanuel Macron veifar stuðningsmönnum sínum eftir að hafa greitt atkvæði. AFP

Kjörstaðir fjölmennustu borga Frakklands lokuðu klukkan fimm að íslenskum tíma og er útlit fyrir að kjörsókn verði svipuð og við síðustu kosningar, um 80 prósent, þrátt fyrir spár um slæma kjörsókn í aðdraganda kosninganna. Þar sem óheimilt er að birta útgönguspár í Frakklandi hafa engar slíkar verið birtar þar í landi, en belgíski miðillinn RTBF sem sendir út í frönskumælandi hluta landsins segir að Emmanuel Macron leiði kapphlaupið að forsetastólnum.

Samkvæmt sömu útgönguspám RTBF fylgja þrír frambjóðendur Macron fast á hæla, en tveir efstu frambjóðendurnir í fyrri umferð kosninganna verða á kjörseðlinum þann 7. maí þegar Frakkar gera endanlega upp hug sinn um hver taki við forsetastólnum af Francois Hollande.

Ófyrirsjáanleg úrslit

Fjallað er ítarlega um kosningarnar í helstu miðlum heims og eru þar allir álitsgjafar á einu máli, að kosningarnar hafi líklega aldrei verið eins undarlegar og nú, og úrslitin ófyrirsjáanleg. Frambjóðendur sóru flokkanna tveggja, Sósíalistar og Repúblikanar, eru ekki á leið í seinni umferðina ef marka má kannanir, en þó getur allt gerst, enda munar litlu á efstu fjórum frambjóendunum.

Frá kjörstað í Marseille í Frakklandi.
Frá kjörstað í Marseille í Frakklandi. AFP

Öryggisgæslan hefur verið mikil í kringum kjörstaði og voru um 50 þúsund lögreglumenn og sjö þúsund hermenn á vakt víðs vegar um landið. Aðeins þrír dagar eru síðan síðasta hryðjuverkaárás var gerð í landinu þegar fylgismaður Ríkis íslams skaut lögreglumann til bana á breiðgötunni frægu, Champs Elysees í París.

Macron og Marine Le Pen?

Fjöldi blaðamanna eru nú komnir saman fyrir utan höfuðstöðvar Þjóðfylkingarinnar í Hénin-Beaumont til þess að vera viðstaddir ræðu Marine Le Pen. Hún mældist önnur í skoðanakönnunum í aðdraganda kosninganna, á eftir Macron. Ef kannanirnar ganga eftir verða þau tvö því á kjörseðlum Frakka í byrjun næsta mánaðar.

Marine Le Pen frambjóðandi Þjóðfylkingarinnar.
Marine Le Pen frambjóðandi Þjóðfylkingarinnar. AFP

Það er þó alls ekki víst, og franskir fjölmiðlar síst sannfærðir um það. Á vef BBC er sagt frá því að umsjónarmenn kosningasjónvarpsins þar í landi „svitni nú köldum svita“ þar sem svo litlu muni á frambjóðendum. Hyggjast einhverjar sjónvarpsstöðvar varpa þremur frambjóðendum á skjáinn ef litlu munar til að fyrirbyggja að mistök verði gerð við tilkynningu á því hvaða tveir frambjóðendur fari áfram í seinni umferðina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert