Bjó í loftinu fyrir ofan klósett í 3 ár

Það kynnu því væntanlega fæstir vel að vita af íbúa …
Það kynnu því væntanlega fæstir vel að vita af íbúa í loftinu fyrir ofan salernið. mbl.is

Japanska lögreglan handtók karlmann í borginni Usuki í suðvesturhluta landsins, eftir að upp komst að hann hafði komið sér upp heimili í holrými fyrir ofan almenningsklósett.

Maðurinn, Takashi Yamanouchi, hafði búið í holrýminu fyrir ofan klósettið í þrjú ár þegar að rafvirki fann þessar óvenjulegu vistarverur við vinnu sína. Japanski vefurinn Mainichi segir manninn hafa sagt lögreglu að hann hafi flutt inn í rýmið sem var óvenju rúmgott þegar að fyrri íbúi í loftinu flutti út.

Talið er að maðurinn hafi komist upp á loftið með því að klifra ofan á klósettbásana og hafi því næst smeygt sér í gegnum lúgu sem notuð er til viðhalds við klósettið. Bæjarstarfsmaður sem fylgdi lögreglu sagði vistarverurnar hafa verið hreinar og snyrtilegar og að þar hefði verið að finna gaseldavél, rafmagnshitara og fatnað mannsins. Það eina sem varpaði skugga á vistarverurnar voru 500 plastflöskur sem virtust vera fullar af hlandi.

Japan er ekki eina þróaða ríkið þar sem fátækt og heimilisleysi hafa leitt marga til þess að finna sér óhefðbundnar vistarverur. Árið 2013 uppgötvuðu yfirvöld í Peking í Kína að kona nokkur hafði búið í holu í jörðunni í 20 ár og að hún hafði nýtt sér rennandi vatn og klósettaðstöðu í lystigarði nokkrum í nágrenninu. Hún var borin út úr holunni og fyllt upp í hana með steypu.

Borgaryfirvöld í Usuki hafa nú látið framkvæma leit í öllum almenningssalernum í borginni í kjölfar þess að Yamanouchi var gert að flytja af klósettloftinu og fullvissa nú almenning um að engir séu búsettir í öðrum slíkum í borginni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert