Enn enginn dæmdur vegna slyssins

Ættingjar þeirra sem létust er verksmiðjan hrundi fyrir fjórum árum …
Ættingjar þeirra sem létust er verksmiðjan hrundi fyrir fjórum árum tóku þátt í mótmælagöngunni í dag. AFP

Þúsundir verkamanna í Bangladess flykktust í mótmælagöngur í dag þar sem þess var minnst að fjögur ár eru liðin frá því að verksmiðjubygging Rana Plaza hrundi. 1.138 létu lífið. Verkafólkið krefst þess að staðið verði við loforð um bættan aðbúnað og hærri laun. Þá krefst verkafólkið réttlætis til handa fórnarlömbunum en enn hefur enginn verið dreginn til ábyrgðar fyrir dómi vegna harmleiksins. 

Hrun verksmiðjunnar og mannfallið sem því fylgdi er eitt mesta slys iðnaðarsögunnar. Um 2.000 manns slösuðust.

Slysið vakti gríðarlega athygli víða um heim og var aðbúnaður verkafólksins gangrýndur harðlega. Þá vakti harmleikurinn ekki síst athygli á því að stór og þekkt tískumerki létu framleiða varning sinn í verksmiðjunni. 

„Ef fjögur ár nægja ekki til að refsa sökudólgunum, færið okkur þá, við skulum við sjá til þess sjálf að réttlætinu verði fullnægt,“ segir Marium Akter sem missti dóttur sína, Shieuly, í harmleiknum.

Neyddir til að byrja að vinna

„Ég þarf ekki bætur. Ég vil að Sohel Rana verði hengdur,“ segir móðirin um eiganda verksmiðjuhússins sem hefur verið ákærður fyrir morð.

Dómstóll í Bangladess komst að þeirri niðurstöðu í fyrra að Rana og fjörutíu til viðbótar yrðu ákærðir fyrir morð. Hópurinn er sakaður um að hafa falsað vottorð um að verksmiðjuhúsnæðið væri öruggt.

Þúsundir verkamanna voru neyddar til að fara inn í bygginguna við upphaf vaktar sinnar þrátt fyrir að margir þeirra hefðu bent á að sprungur væru komnar í bygginguna. 

Í Bangladess eru um 4.500 fataverksmiðjur sem framleiða fatnað fyrir verslanir á Vesturlöndum. Aðeins brot af þeim er með öryggisvottun.

Verksmiðjur í Bangladess framleiða fatnað fyrir tískuverslanir á Vesturlöndum í …
Verksmiðjur í Bangladess framleiða fatnað fyrir tískuverslanir á Vesturlöndum í stórum stíl. AFP

Yfirvöld í Bangladess hafa greitt um 3.000 manns bætur vegna slyssins, m.a. þeim sem slösuðust og fjölskyldum hinna látnu. En margir telja að bæturnar dugi skammt.

„Ég vil frekar deyja en að þurfa að lifa við þessi skilyrði,“ segir Nilufa Begum. Henni var bjargað úr rústum byggingarinnar, tíu klukkutímum eftir að hún hrundi. Begum þarf enn að styðjast við hækjur. „Ég vil lifa mannsæmandi lífi,“ segir hún og tekur fram að hún hafi þurft að eyða miklum fjármunum í lækniskostnað. 

Margir þeirra sem lifðu harmleikinn tóku þátt í mótmælagöngunni í Savar í úthverfi höfuðborgarinnar Dakka og við kirkjugarðinn þar sem fórnarlömbin eru grafin.

Fólkið krafðist hækkunar lágmarkslauna. Mánaðarlaunin eru nú 68 dollarar eða um 7.500 krónur. Krafan er sú að þau verði hækkuð í 200 dollara, um 22 þúsund krónur.

Fjórar milljónir manna í Bangladess vinna í fataverksmiðjum í landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert