Hóta því að „þurrka út“ Bandaríkin

Bandaríska flugmóðurskipið Carl Vinson er á leið að Kóreuskaga.
Bandaríska flugmóðurskipið Carl Vinson er á leið að Kóreuskaga. AFP

Á opinberri vefsíðu yfirvalda í Norður-Kóreu er varað við því að stjórnvöld muni „þurrka út“ Bandaríkin ef stjórnvöld þar í landi hefja árásir á Kóreuskaga. Þetta er nýjasta útspilið í orðaskaki stjórnvalda landanna tveggja. 

Bandaríska flugmóðurskipið Carl Vinson er væntanlegt að Kóreuskaga „innan fárra daga“ sagði varaforseti Bandaríkjanna, Mike Pence, á laugardag. Skipið var sent af stað á vettvang eftir fréttir um að Norður-Kóreumenn væru að hefja sína sjöttu tilraun með kjarnorkuvopn.

Stjórnvöld í Norður-Kóreu eru enn talin vera langt frá því markmiði sínu að búa til langdrægt flugskeyti sem náð gæti ströndum Bandaríkjanna. Þeir hafa þó nokkrum sinnum gert tilraunir með eldflaugar á undanförnum vikum sem miða að því að sýna hernaðarmátt þeirra.

Gæti hrætt marglyttu en ekki stjórnvöld

Dagblaðið Rodong Sinmun, sem er opinbert málgagn ríkisstjórnar Kims Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, hefur að undanförnu birt ritstjórnargreinar þar sem fram kemur að stjórnvöld séu hvergi bangin. Koma Bandaríkjahers að Kóreuskaga er þar kölluð „ódulbúin kúgun“.

„Slík hótun gæti hrætt marglyttu en mun aldrei virka á DPRK [stjórnmálaflokk Kims],“ segir í ritstjórnargrein blaðsins í dag.  Í gær kom fram í blaðinu að herinn væri tilbúinn í stríð og til að sökkva bandaríska flugmóðurskipinu með „einni árás“.

Orðagjálfur stjórnvalda í Norður-Kóreu magnast á hverju vori en þá halda bandaríski og suðurkóreski herinn venjulega sameiginlega heræfingu. Stjórnvöld í Norður-Kóreu líta ávallt á æfinguna sem undirbúning fyrir árás á sig.

Stjórnvöld í Norður-Kóreu segjast viðbúin árás Bandaríkjamanna.
Stjórnvöld í Norður-Kóreu segjast viðbúin árás Bandaríkjamanna. AFP

Fleiri miðlar, hliðhollir stjórnvöldum í Norður-Kóreu og áróðursmiðlum þeirra, hafa fjallað um málið. Í ritstjórnargrein á vefsíðunni Uriminzokkiri segir að koma flugmóðurskipsins Carls Vinson bendi til að stríð sé í aðsigi. „[Koma skipsins] sannar að innrásin í Norður-Kóreu nálgast með hverjum deginum.“

Fram kemur að greinin sé skrifuð af hershöfðingja. Í henni kemur fram að Bandaríkjamenn hafi misreiknað sig stórlega er þeir báru Norður-Kóreu saman við Sýrland. Muni Bandaríkjamenn gera árás muni „heimurinn verða vitni að því hvernig [flugmóðurskipunum] verður breytt í stóran haug af stáli og þau grafin á hafsbotni og hvernig land sem kallast Bandaríkin verður þurrkað út af yfirborði jarðar.“

Talið er mögulegt að Norður-Kóreumenn muni gera tilraun með eldflaugar á morgun, þriðjudag. Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa varað við því að „allt komi til greina“ til að halda aftur af hernaðaráformum þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert