Segir ekki rétt að afskrifa Le Pen

Nigel Farage.
Nigel Farage. AFP

„Það getur enn allt gerst,“ sagði Nigel Farage, fyrrverandi leiðtogi Breska sjálfstæðisflokksins, í samtali við bandarísku sjónvarpsstöðina Fox í dag spurður um forsetakosningarnar í Frakklandi. Fyrri umferð kosninganna fór fram í gær en kosið verður á milli þeirra tveggja sem fengu flest atkvæði, Marine Le Pen og Emmanuel Macron, þann 7. maí.

Farage sagði að enn væri mögulegt að Le Pen hefði sigur samkvæmt frétt AFP. Lofaði hann bæði hana og Donald Trump Bandaríkjaforseta. Vísaði hann til þess að komið hefði mörgum á óvart þegar meirihluti breskra kjósenda ákvað að Bretland skyldi yfirgefa Evrópusambandið síðasta sumar og að Trump yrði kosinn forseti Bandaríkjanna í nóvember.

„Ekki afskrifa þetta,“ sagði Farage. Almennt er búist við að Le Pen muni eiga á brattann að sækja og að Macron eigi eftir að sigra hana með um 20% mun í seinni umferð forsetakosninganna. Farage sagðist þó ekki endilega vera að segja að Le Pen myndi sigra í kosningunum en að bilið á milli hennar og Macrons ætti eftir að minnka mjög.

„Þetta er mikil barátta á milli tveggja menningarheima. Alþjóðasinnanna sem vilja opin landamæri og hinna sem hafa trú á þjóðríkjunum og vilja standa vörð um þjóðir sínar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert