UKIP í tilvistarkreppu

Paul Nuttall, leiðtogi UKIP.
Paul Nuttall, leiðtogi UKIP. AFP

Breski sjálfstæðisflokkurinn (UKIP) á í erfiðleikum með að endurskilgreina sig þegar aðeins nokkrar vikur eru fram að þingkosningum í Bretlandi segir í frétt AFP. Ástæðan er sú að Bretar eru á leið úr Evrópusambandinu undir forystu Theresu May forsætisráðherra og Íhaldsflokks hennar sem verið hefur helsta baráttumál UKIP.

Fram kemur að frá því að meirihluti breskra kjósenda samþykkti í þjóðaratkvæði síðasta sumar að segja skilið við Evrópusambandið hafi UKIP gengið í gegnum leiðtogaslag, sem síðan var endurtekinn vegna þess að frambjóðandinn sem sigraði fyrst hætti í kjölfar þess, og innbyrðist deilur um það hvert flokkurinn eigi að stefna. 

Vandræði UKIP þykja hafa aukist enn fyrr í dag þegar leiðtogi flokksins, Paul Nuttall, neitaði að svara því hvort hann yrði í framboði í þingkosningunum en hann er nú þingmaður fyrir flokkinn á þingi Evrópusambandsins.

Nuttall reyndi fyrir sér í aukakosningum í kjördæminu Stoke-on-Trent í febrúar en tapaði fyrir Verkamannaflokknum þrátt fyrir að 69% kjósenda hafi greitt atkvæði með úrsögn úr Evrópusambandinu í þjóðaratkvæðinu.

Segir verkefni UKIP vera lokið

Eini þingmaður UKIP, Douglas Carswell, á breska þinginu sagði sig úr flokknum í síðasta mánuði og helsti fjárhagslegi bakhjarl hans, Arron Banks, hótaði úrsögn að sama skapi í kjölfar ósigurs Nuttalls ef flokksmenn tækju sig ekki saman í andlitinu.

UKIP hefur að undanförnu lagt áherslu að flokkurinn hafi enn hlutverki að gegna við að tryggja að Bretland gangi úr Evrópusambandinu þannig að fullt fullveldi landsins verði endurheimt og ennfremur lagt aukna áherslu á innflytjendamál.

Hins vegar virðast kjósendur vera sammála Carswell sem hefur ítrekað sagt að stuðningsmenn flokksins geti verið sáttir við að hafa átt stóran þátt í að þjóðaratkvæðið var haldið og að Bretland sé á leið úr Evrópusambandinu. En verkinu sé nú lokið.

UKIP mælist með einungis 5-7% fylgi samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum en var fyrir skömmu með um 10%. Hins vegar mældist flokkurinn með 20% í apríl á síðasta ári þegar kosningabaráttan vegna þjóðaratkvæðisins var í fullum gangi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert