Var Madeleine smyglað til Afríku?

Madeleine McCann hvarf þann 3. maí árið 2007. Þá var …
Madeleine McCann hvarf þann 3. maí árið 2007. Þá var hún þriggj ára. Tíu ár eru nú liðin frá hvarfinu. mbl.is

Bresku stúlkunni Madeleine McCann var mögulega rænt og hún seld til ríkrar fjölskyldu, að sögn fyrrverandi lögreglumanns. Einkaspæjarar, sem fjölskylda stúlkunnar réð til starfa, telja að henni gæti hafa verið smyglað með ferju til Afríku. Þekkt er að gengi smyglara í Máritaníu í Vestur-Afríku  steli börnum og selji þau til ríkra fjölskyldna í Miðausturlöndum.

Þetta kemur fram í frétt breska dagblaðsins Telegraph.

Fyrir tíu árum hvarf McCann, þá þriggja ára, er fjölskyldan var í fríi í Portúgal. Umfangsmikil leit hefur verið gerð að henni nær allar götur síðar.

Colin Sutton, fyrrverandi lögreglumaður hjá Lundúnalögreglunni, segir í viðtali við Mirror að nauðsynlegt sé að rannsaka hvort að stúlkan hafi verið flutt til Afríku.

„Ef einhver vill flytja þriggja ára barn til Afríku þá er Máritanía augljós leið,“ segir hann og bendir á að innviðir landsins séu veikir og að þar ráði smyglarar ríkjum. 

Taldi sig sjá hana í ferjunni

Fram hefur komið í fréttum nýlega að einkaspæjararnir telji að hún hafi mögulega verið flutt til Afríku í gegnum Marokkó. Í frétt Telegraph segir að ekki sé vitað hvort að lögreglan hafi á sínum tíma rannsakað þessa kenningu.

Stuttu eftir hvarf McCann árið 2007 sagðist ferðamaður hafa séð stúlku sem líktist henni í ferju sem var á leið frá Tarifa til Tangier í Marokkó. Þetta var fjórum dögum eftir að hún hvarf.  

Tveimur dögum síðar sögðust ferðamenn hafa séð stúlku sem líktist henni ásamt karlmanni við bensínstöð í nágrenni hótels í Marrakech, að því er fram kemur í frétt Mirror.

Í frétt blaðsins er haft eftir hjónum sem sögðust hafa séð stúlkuna að þau hefðu á þeim tímapunkti ekki vitað að hennar væri saknað. Það hafi ekki verið fyrr en þau komu heim að þau áttuðu sig á að þarna hafi Madeleine litla mögulega verið á ferð. Konan segir að barnið hafi verið í bláum náttbuxum og virst sorgmætt. Þá segir hún stúlkuna hafa spurt manninn sem hún var með hvenær hún myndi hitta móður sína. 

Höfðu aldrei samband

Hjónin gerðu portúgölskum og breskum yfirvöldum viðvart og gáfu skýrslu. Þá hafi þau sent bresku lögreglunni tölvupóst um málið. 

Í gögnum portúgölsku lögreglunnar um málið, sem gerð voru opinber um ári eftir að stúlkan hvarf, kom fram að hún hefði fengið áframsendan þennan tölvupóst frá kollegum sínum á Bretlandseyjum. Hjónin segja hins vegar að aldrei hafi verið haft samband við þau aftur.

„Ég reyni að hugsa ekki um hvað ég hefði getað gert. Það eina sem ég er sannfærð um er að þetta var Madeleine,“ segir konan við Mirror.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert