Dæmdir fyrir hópnauðgun sem sýnd var í beinni

Mennirnir tóku árásina upp og sýndu hana í beinni á …
Mennirnir tóku árásina upp og sýndu hana í beinni á Facebook. AFP

Dómstóll í Svíþjóð hefur dæmt þrjá unga karlmenn í fangelsi fyrir að hópnauðga konu og sýna beint frá árásinni á Facebook.

Reza Mohammed Ahmadi, 21 árs, var dæmdur í tveggja ára og fjögurra mánaða fangelsi, Maysam Afshar, 18 ára, var dæmdur í árs fangelsi. Dómurinn var mildaður vegna ungs aldurs hans.

Mennirnir eru báðir afganskir ríkisborgarar en hafa fengið dvalarleyfi í Svíþjóð.

Emil Khodagholi, 21 árs sænskur ríkisborgari, fékk sex mánaða fangelsisdóm fyrir að birta myndskeið af árásinni á Facebook.

Mennirnir voru handteknir í Uppsölum þann 22. janúar. Þá höfðu þeir sýnt árásina í beinni útsendingu í lokuðum Facebook-hóp sem taldi 60 þúsund meðlimi. Áhorfendur létu lögregluna vita. 

Myndskeiðið var síðar fjarlægt af Facebook en því hefur engu að síður verið dreift manna á milli í netheimum. 

Sænski saksóknarinn hélt því fram við réttarhöldin að Khodagholi hefði kvatt félaga sína áfram og hlegið á meðan hann tók upp nauðgunina á símann sinn. Hann birti hana um leið, eða strax í kjölfarið á Facebook, samkvæmt rannsókn lögreglu.

Gat ekki samþykkt kynlíf

Þremenningarnir neituðu allir sök í málinu. Ahmadi og Afshar sögðust hafa haft kynmök við konuna en að það hafi verið með hennar samþykki.

Khodagholi hélt því fram við meðferð málsins að hann hefði ekki verið sá eini sem tók árásina upp. Þá segist hann ekki hafa gert sér grein fyrir að fórnarlambið vildi ekki að upptakan yrði birt almenningi.

Saksóknararnir segja að konan hafi verið ofurölvi og einnig undir áhrifum fíkniefna. Þeir sögðu að mennirnir þrír hljóti að hafa tekið eftir því. 

„Það er ekki mögulegt fyrir manneskju í því ástandi að samþykkja kynlíf,“ sagði dómarinn Nils Palbrant í niðurstöðu sinni.

Þremenningarnir voru einnig dæmdir til að greiða fórnarlambi sínu skaðabætur, 335 þúsund sænskar krónur eða um 4,1 milljón íslenskra króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert