Ivanka heldur uppi vörnum fyrir pabba

Ivanka Trump, Christine Lagarde og Angela Merkel.
Ivanka Trump, Christine Lagarde og Angela Merkel. AFP

Það mætti lítilli hrifningu á G20 kvennaráðstefnu sem haldin er í Berlín í dag, þegar Ivanka Trump tók að lofa pabba sinn. Ivanka, sem er dóttir Donald Trumps Bandaríkjaforseta, átti sæti í pallborði á fundi um frumkvöðla úr röðum kvenna ásamt Angelu Merkel Þýskalandskanslara og Christine Lagarde, yfirmaður Alþjóða gjaldeyrissjóðsins.

Það var Merkel sem bauð Trump að taka þátt í fundinum, þegar hún heimsótti Hvíta húsið í síðasta mánuði.

Stunur heyrðust frá áheyrendum þegar Trump sagði gestum að faðir sinn væri „mikill málsvari þess að styðja fjölskyldur og gera þeim kleift að dafna“.

Bandaríkjaforseti hefur verið gagnrýndur fyrir viðhorf sitt til kvenna, ekki hvað síst eftir að upptöku var lekið í fjölmiðla þar sem Trump var með klámfengnar athugasemdir í garð kvenna.

Forsetadóttirin sagði að þó hún hefði heyrt gagnrýni fjölmiðla í garð Trump þá þekkti hún föður sinn ekki í þeim lýsingum, né heldur þær „þúsundir“ kvenna sem hefðu unnið fyrir hann í gegnum árin.

„Hann hvatti mig áfram og fékk mig til að blómstra. Ég ólst upp á  heimili þar sem voru engar takmarkanir á því hverju ég gæti fengið áorkað,“ sagði hún.

Það vakti litla hrifningu gesta þegar Ivanka Trump hélt uppi …
Það vakti litla hrifningu gesta þegar Ivanka Trump hélt uppi vörnum fyrir Donald Trump. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert