Sagður líffræðilegur faðir 60 barna

Sæðisfruma og egg.
Sæðisfruma og egg. Mynd/Af vef Wikipedia

Hópur Hollendinga sem fæddist með aðstoð tæknifrjóvgunar hefur krafist þess að erfðapróf verði gerð á látnum fyrrverandi yfirmanni sæðisbanka en talið er að hann sé líffræðilegur faðir allt að sextíu barna.

Jan Karbaat, sem lést fyrr í þessum mánuði 89 ára gamall, er sagður hafa gefið sæði sitt á meðan hann starfrækti meðferðarstöð sína í borginni Rotterdam. Mannréttindasamtökin Defence for Children, ásamt öðrum samtökum sem nefnast Donorkind, eru fulltrúar foreldra og barna í málinu.

„Þrátt fyrir að hann sé látinn er enn hægt að bera saman erfðaefni hans við erfðaefni þeirra sem grunur leikur á um að séu börn hans,“ sögðu Defence for Children. Þau saka Karbaat um að hafa misnotað aðstöðu sína og vanrækt sjúklinga sína.

Hollenski ríkisfjölmiðillinn NOS og dagblaðið AD segja að Karbaat sé líffræðilegur faðir allt að sextíu barna. Hann hafi falsað ýmis gögn og brotið um leið reglu um að einn sæðisgjafi geti verið að baki sex börnum að hámarki.

Meðferðarstöð hans er sögð hafa lokað árið 2009.

Leyndarmálið í gröfina

„Það er ótrúlegt að hann sé ekki lengur á lífi,“ sagði Moniek Wassenaar, 36 ára, sem fæddist eftir frjósemisaðgerð.

„Hann hefur tekið leyndarmálið með sér í gröfina.“

Hún hitti Karbaat árið 2010 og tók þá eftir svipuðum líkamlegum einkennum.

„Við erum bæði með stórt enni og munn. Hann sagði mér að það væri útilokað að ég væri líffræðilegt barn hans.“

Læknirinn neitaði að fara í blóðpróf en sagðist vera stoltur af því að hafa notað sitt eigið sæði á meðferðarstöðinni.

Að sögn Wassenaar sagðist Karbaat vera gáfaður og heilsuhraustur. Þess vegna gæti hann deilt genum sínum með heiminum. „Hann leit á þetta sem göfugan hlut. Hann hugsaði ekkert um siðgæðið og gerði lítið úr áhrifum gjörða sinna á börnin.“

Að sögn Defence for Children hafa öll börn rétt á því að vita hverjir foreldrar þeirra eru, samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Vilja erfðaefni úr ættingjum 

Ættingjar Karbaat hafa verið beðnir um að útvega erfðaefni sín til að aðstoða við rannsókn málsins.

Fyrir dauða Karbaat höfðuðu foreldrar barna og börn sem fæddust með hjálp frjósemisaðgerða mál gegn honum. Réttarhöldin áttu að hefjast í maí en málinu hefur verið frestað í von um að ættingjar hans útvegi erfðaefni sín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert