Skipað fara úr landi fyrir 10. júní

Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur og forseti Bandaríkjanna, Donald Trump …
Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur og forseti Bandaríkjanna, Donald Trump áttu fund saman í lok mars. AFP

Breytt útlendingalög í Danmörku valda því að það er orðið enn erfiðara en áður fyrir Dani að flytja heim aftur ef þeir eiga erlendan maka. Fyrsta fjölskyldan sem er neydd til þess að fara úr landi er danskur stjarneðlisfræðingur sem flutti heim ásamt bandarískri eiginkonu og tveimur börnum. Hann hafði búið í Kaliforníu í 20 ár þegar þau fluttu til Danmerkur í fyrra. Nú er konu hans gert að fara úr landi fyrir 10. júní.

Uffel Hellsten flutti til Danmerkur ásamt eiginkonu sinni, Quynh Doan og börnum síðasta sumar. Nú hefur Doan verið synjað um dvalarleyfi í Danmörku.

Samkvæmt dönskum lögum er ekki sjálfgefið að hjón með danskan ríkisborgararétt auk ríkisborgararétts í ríki utan Evrópusambandsins. Í tilviki Doan þótti hún tengjast síðara landinu meira en Danmörku.

Samkvæmt frétt Jyllands Posten, sem The Local vísar til, er henni gert að yfirgefa landið fyrir 10. júní.

Öll pör sem eru af ólíku þjóðerni og sá sem ekki er danskur er ekki með ríkisborgararétt í ESB-Ríki, þurfa nú að uppfylla ákveðin skilyrði (tilknytningskravet) eftir að reglan sem áður gilti var dæmd ógild í dómsniðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu. Sú regla mismunaði Dönum sem voru fæddir í Danmörku eða komu þangað ungir að árum, til að mynda flóttafólk, en fengu ekki ríkisborgararétt fyrir en löngu síðar.

Mál Hellsten og Doan er fyrsta málið þar sem umsækjendum er hafnað en samkvæmt gömlu reglunni hefði umsóknin verið samþykkt.

„Við komum hingað síðasta sumar en það tók okkur heilt ár að undirbúa flutninginn frá Kaliforníu til Danmerkur. Við seldum húsið okkar í Kaliforníu og keyptum hús hér í Vodskov og héldum að við værum að fara að upplifa fjölskyldulíf. Reglurnar voru þannig þegar við fluttum að við gátum flutt og búið í Danmörku sem fjölskylda án vandamála en daginn sem við sóttum um hafði reglunum verið breytt. Nú sitjum við uppi með synjun og Quynn þarf að yfirgefa landið fyrir 10. júní, segir Hellsten í viðtali við Jyllands Posten.

Samtökin hjónabönd utan landamæra (Ægteskab uden Grænser) segja að mörg hjón óttist að lenda í sömu stöðu. Þar sé verst óvissan og óöryggið. Við getum fullvissað marga um að þeir uppfylli skilyrðin og fái heimild en alls ekki allir, segir Lars Kyhnau Hansen, talsmaður samtakanna.

Danska ríkisstjórnin er að vinna að gerð frumvarps sem á að breyta lögunum, segir í JP. En samkvæmt breytingunni eru þeir sem eru með há laun undanþegnir frá reglunni. Það þýðir að þeir sem starfa sjálfstætt, lífeyrisþegar og þeir sem eru með lág laun eiga von á því að vera synjað um heimild til að setjast að í heimalandi maka sinna.

Um 10-20 þúsund Danir sem eru búsettir um þessa mundir í útlöndum eiga á hættu að fá sömu svör og Hellsten og Doan ætli þeir sér að flytja heim á ný. Ráðherra innflytjendamála, Inger Støjberg, viðurkennir við JP að lögin séu ekki fullkomin en þeim hafi  verið ætlað að aðstoða eins marga og hægt er.

„Þetta er besta lausnin sem við getum boðið upp á eins og er,“ segir hún. „Danmörk á ekki að breyta lögum sínum til þess að aðstoða fólk sem er í sömu stöðu,“ segir Martin Henriksen, talsmaður danska Þjóðarflokksins. Hann segir mikilvægt fyrir landið að vera með mjög stífar reglur varðandi innflytjendur og vandamálið sé Mannréttindadómstóll Evrópu. 

„Þetta er gríðarlega ósanngjörn staða sem þau eru sett í og þetta er afleiðing af mörgum alþjóðlegum samningum sem Danir hafa skrifað undir. Það er raunalegt að mannréttindi eru notuð til þess að banna danska þinginu að samþykkja lög sem er ætlað að veita eigin þegnum ávinning,“ bætir hann við.

Henriksen segir að danska ríkið hafi átt að hunsa ákvörðun Mannréttindadómstólsins og halda fast í gömlu regluna. Því með þessu eru stjórnvöld neydd til þess að slaka á í innflytjendamálum sem þýðir að alls konar fólk getur komið til Danmerkur. Það telur hann óábyrgt, samkvæmt viðtali við JP en blaðið hefur rætt við fleiri hjón sem standa frammi fyrir sama vanda.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert