Unglingur áfram í gæsluvarðhaldi

AFP

Sautján ára rússneskur unglingur, sem var handtekinn í Ósló fyrr í mánuðum verður áfram í gæsluvarðhaldi. Efni sem notuð eru við sprengjugerð fundust í fórum hans við handtökuna 9. apríl, tveimur dögum eftir árásina í Stokkhólmi.

Samkvæmt frétt norska ríkisútvarpsins er hann í einangrun næstu tvær vikurnar. Norska öryggislögreglan, PET, segist hafa sterkar vísbendingar gegn honum og að forsendur gæsluvarðhaldsúrskurðar verði ekki birtar vegna ótta við að það geti spillt fyrir rannsókninni.

Saksóknari lögreglunnar, Kathrine Tonstad, segir í samtali við NRK að rannsóknin sé enn á frumstigi en sífellt fleiri upplýsingar hafi borist frá því rannsóknin hófst.

Hún segir mestu skipta núna að komast að því hvers vegna ungmennið var með efni til sprengjugerðar á heimili sínu í Grønland-hverfinu í Ósló. Aase Karine Sigmond, skipaður verjandi piltsins segir að skjólstæðingur hennar segist vera saklaus og að hann hafi ekki ætlað sér að valda neinum skaða. Hann segist hafa ætlað sér að sprengja sprengjuna, sem er heimatilbúin, fjarri mannabyggð.

Pilturinn á að hafa lýst yfir stuðningi við vígasamtök á samfélagsmiðlum en hann neitar því sjálfur. Hann flutti til Noregs árið 2010 ásamt fjölskyldu sinni. 

Fréttin í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert