Bæjarstjóri sektaður fyrir ummæli um börn

Bæjarstjórinn í Beziers, Robert Menard.
Bæjarstjórinn í Beziers, Robert Menard. AFP

Frönskum bæjarstjóra hefur verið gert að greiða 2 þúsund evrur í sekt fyrir ummæli sín um að honum þætti of mörg börn í skóla bæjarins vera múslímar. Bæjarstjórinn er ekki skráður í stjórnmálasamtök en er samkvæmt frétt BBC öfgahægrimaður.

Bæjarstjórinn í Beziers, Robert Ménard, skrifaði á Twitter í byrjun september 2016, á fyrsta skóladegi yfirstandandi skólaárs í Frakklandi, að hann væri að upplifa breytingar. „Í miðborginni í heimbæ mínum er 91% nemenda múslímar. Auðsjáanlega er þetta vandamál. Það eru takmörk fyrir því hvað er hægt að umbera.“

„Dans une classe de centre-ville de chez moi, 91% d'enfants musulmans. Évidemment que c'est un problème“.

Samkvæmt frönskum lögum er bannað að mismuna fólki á grundvelli trúar eða uppruna. Menard varði ummæli sín með því að segja að hann hafi bara verið að lýsa ástandinu í bænum. Þetta sé staðreynd sem hann sjái og upplifi.

Í frétt BBC kemur fram að Ménard ætli að áfrýja niðurstöðunni.

Ménard er harðvítugur andstæðingur þess að innflytjendur fái að setjast að í Frakklandi, segir í fréttum BBC og AFP. Þrátt fyrir að hafa boðið sig fram utan flokka þá nýtur hann stuðnings þjóðernisflokksins Front National. Formaður flokksins, Marine Le Pen, sagði sig frá formannsembættinu tímabundið á mánudagskvöldið en hún mætir Emmanuel Macron, stofnanda miðjuflokksins En Marche!, í seinni umferð forsetakosninganna 7. maí.

Frétt Le Monde

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert