Fannst á lífi eftir 47 daga

AFP

Rúmlega tvítugur karlmaður frá Taívan fannst í dag í Himalaja-fjöllum eftir að hafa verið týndur þar ásamt 19 ára kærustu sinni í 47 daga. Lík hennar fannst skammt frá og segir maðurinn, Liang Sheng Yueh, að hún hafi látist fyrir þremur dögum.

Fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC að Liang hafi fundist í gili um 2600 metrum yfir sjávarmáli skammt frá þorpinu Tipling í Nepal. Honum var bjargað af þyrlu og er nú til aðhlynningar á sjúkrahúsi í Katmandú, höfuðborg landsins. Er hann ekki sagður í lífshættu en er hins vegar með bit víða um líkamann eftir orma.

Liang léttist um 30 kíló á þeim tæplega sjö vikum sem hann var týndur. Liang og kærasta hans, Liu Chen Chun, stunduðu háskólanám í Taívan og komu til Nepals frá Indlandi í febrúar. Þau sáust síðast í héraðinu Dhading 9. mars þegar þau fóru í gönguferð.

Mikil sjókoma var þegar þau sáust síðast. Fjölskyldur þeirra fóru að hafa áhyggjur þegar þau hringdu ekki til Taívans á umsömdum tíma 10. mars. Óskuðu þær eftir aðstoð við að finna þau og hófst þá leit að þeim. Talið er að þau hafi runnið af sleipri gönguleið og setið föst í gilinu og ekki komist upp aftur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert