Hjón létust með 40 mínútna millibili

Isaac lést úr ótilgreindu meini aðeins 40 mínútum eftir að …
Isaac lést úr ótilgreindu meini aðeins 40 mínútum eftir að konan hans til 69 ára, Teresa, lést úr alzheimer. Mynd úr safni. AFP

Hjón í Illinois í Bandaríkjunum, sem höfðu verið gift í 69 ár, létust með aðeins 40 mínútna millibili. Isaac Vatkin, 91 árs gamall, hélt í hönd konu sinnar Teresu, þegar hún lést eftir baráttu við alzheimer-sjúkdóminn þá 89 ára gömul. Starfsfólk sjúkrahússins þar sem hjónin lágu hafði fært rúm þeirra hjóna saman svo þau gætu verið saman fram á hinstu stund.

Þegar Teresa var látin voru hjónin aftur færð í sundur en aðeins 40 mínútum síðar lést Isaac úr ótilgreindu meini. „Ást þeirra á hvort öðru var sterk, þau einfaldlega gátu ekki lifað án hvors annars,“ segir Clara Gesklin, ein þriggja barna hjónanna, í samtali við The Daily Herald og Fox News greinir frá.

Isaac var langt kominn á áttræðisaldur þegar Teresa greindist með alzheimer en hann lærði að nota tölvu svo hann gæti leitað að og kynnt sér möguleg meðferðarúrræði og lækningar við sjúkdómnum. Þegar fjölskyldan ákvað að tímabært væri að Teresa fengi viðeigandi umönnun utan heimilisins, heimsótti Isaac hana daglega.

„Maður vildi ekki sjá þau fara,“ segir William Vatkin, barnabarn þeirra Isaacs og Teresu, „en þú gætir ekki beðið um nokkuð meira.“

Hjónin kynntust í Argentínu, þaðan sem þau eru upprunalega, og fluttu til Bandaríkjanna til að stofna fjölskyldu. Þeirra var minnst í sameiginlegri athöfn og voru þau jörðuð saman á mánudag. „Þau voru alltaf ástfangin, bókstaflega til endaloka,“ sagði rabbíninn Barry Schecter við athöfnina, „allt fram á síðustu sekúndu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert