Púuðu á Macron

Marine Le Pen, forsetaframbjóðandi frönsku Þjóðfylkingarinnar, með verkafólki Whirpool verksmiðjunnar.
Marine Le Pen, forsetaframbjóðandi frönsku Þjóðfylkingarinnar, með verkafólki Whirpool verksmiðjunnar. AFP

Emmanuel Macron, sem mun keppa við Marine Le Pen um forsetaembættið í byrjun næsta mánaðar, vakti litla hrifningu hjá verkafólki í Amiens sem púaði á hann í dag að sögn fréttavefjar BBC.

Le Pen hafði fyrr um daginn rætt við starfsfólk Whirlpool verksmiðjunnar í Amiens, sem á á hættu að missa störf sín til Póllands, á meðan að Macron, sem er ættaður frá Amiens, fundaði með verkalýðsleiðtogum í næsta nágrenni.

„Þegar ég heyrði að Emmanuel Macron væri að koma hingað og ætlaði ekki að hitta verkafólkið, ætlaði ekki hitta verkfallsverði, heldur ætlaði að fela sig hjá verslunarráðinu þá fannst mér það sýna slíka fyrirlitningu að ég ákvað að koma hingað og hitta ykkur,“ hefur Reuters-fréttastofan eftir Le Pen.

Púað var á óháða frambjóðandann Emmanuel Macron þegar hann kom …
Púað var á óháða frambjóðandann Emmanuel Macron þegar hann kom í verksmiðju Whirlpool. AFP

Macron nýtti sér samfélagsmiðilinn Twitter til að svara fyrir sig: „MLP [Marine Le Pen] = 10 mínútur með fylgismönnum sínum á bílastæði fyrir framan myndavélarnar; Ég = klukkutími og korter með verkalýðsfélögum án fjölmiðla. Það velur hver fyrir sig 7. maí,“ sagði í Twitter-skilaboðum Macron.

Macron sakaður um værukærð

Þegar Macron heimsótti verksmiðjuna síðar um daginn í fylgd blaðamanna, þá púuðu margir á hann og flautuðu. „Það er enginn vinna,“ hrópaði kona í hópnum ítrekað á meðan að Macron reyndi að ávarpa starfsfólkið.

Skoðanakannanir benda til þess að Macron muni fara með sigur af hólmi í forsetakosningunum 7. maí, og hefur hann verið sakaður um værukærð í ljósi þess mikla forskots sem hann virðist hafa. Fyrrum flokksfélagar hans hafa m.a. gagnrýnt hann, en Macron var ráðherra í stjórn sósíalista áður en hann ákvaða að bjóða sig fram til forseta undir merkjum eigin framboðs En Marche!.

„Hann var drýldinn,“ sagði Jean-Christophe Cambadelis leiðtogi Sósíalistaflokksins í viðtali við franska útvarpsstöð. „Hann hélt ranglega að þetta væri afgreitt mál. Þetta er ekki búið.“

Sarkozy ætlar að kjósa Macron

Framboð Macrons efldist enn frekar í dag þegar Nicolas Sarkozy, fyrrverandi forseti Frakklands, lýsti yfir stuðningi sínum við hann.  François Fillon, frambjóðandi franska Repúblikanaflokksins sem er flokkur Sarkozys, komst ekki áfram í seinni umferðina og hafa verið uppi spurningar um hvern leiðtogar flokksins myndu styðja.

„Ég tel að kjör Marine Le Pen og áætlanir hennar muni hafa alvarlegar afleiðingar fyrir land og þjóð,“ sagði í yfirlýsingu frá Sarkozy. „Ég mun þess vegna kjósa Emmanuel Macron í seinni umferð forsetakosninganna. Þetta er ábyrgt val en jafngildir ekki stuðningi við áætlanir hans.“ Tilkynnti Sarkozy því næst að hann væri hættur öllu stjórnmálavafstri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert