Rannsaka „mikilvægar vísbendingar“

Madeleine McCann var þriggja ára er hún hvarf frá hóteli …
Madeleine McCann var þriggja ára er hún hvarf frá hóteli í Portúgal. Í næstu viku verður liðinn áratugur frá hvarfinu.

Lögregluteymið sem enn vinnur að því að rannsaka hvarf bresku stúlkunnar Madeleine McCann segist nú vera að rannsaka vísbendingar sem máli geta skipt. Á þriðjudag, 2. maí, verða tíu ár liðin frá því að Madeleine litla hvarf af hótelherbergi í Portúgal, þá þriggja ára gömul. 

Aðstoðaryfirlögregluþjónninn Mark Rowley segir í samtali við Sky-fréttastofuna að um sé að ræða vísbendingar sem þykja þess verðar að skoða og gætu veitt einhver svör. „En þar til við förum í gegnum þær þá veit ég ekki hvort við munum [fá svör] eða ekki.“

Hann segir að breskir og portúgalskir lögreglumenn séu að vinna „mikilvæga vinnu og við viljum ekki spilla henni með því að upplýsa almenning um það.“

Kenning um innbrot enn uppi á borðinu

Í frétt Sky segir að fjórir menn, þeir einu sem opinberlega hafa hingað til verið grunaðir um aðild að hvarfinu, liggi nú ekki lengir undir grun. Mennirnir voru á sínum tíma yfirheyrðir grunaðir um að hafa brotist inn í hótelíbúð fjölskyldu McCann í Portúgal og tekið hana á brott með sér.

Rowley segir við Sky að kenningin hafi verið sú að mennirnir hafi ætlað að stela úr íbúðinni en heyrt barnsgrát eða séð barnið og í óðagoti, hræddir um að upp um þá kæmist, tekið hana með. Lögreglan telur að þó að mennirnir fjórir séu ekki lengur grunaðir gæti þessi kenning um aðdraganda barnsránsins enn verið rétt. 

Þrjú börn voru í íbúðinni

Í frétt Sky er rifjað upp að Madeleine var ekki ein í íbúðinni. Hún var inni í svefnherbergi hennar ásamt yngri tvíburasystkinum sínum. Börnin voru öll sofandi er foreldrarnir, læknarnir Kate og Gerry, fóru úr íbúðinni og settust inn á veitingastað skammt frá. 

Lundúnalögreglan tók yfir rannsókn málsins fyrir sex árum. Þá hafði sú portúgalska rannsakað málið frá upphafi en árangurs. Árið 2015 voru 29 lögreglumenn að rannsaka málið en í dag eru þeir fjórir.

Lögreglan segir að enn berist ábendingar í tengslum við hvarfið á hverjum degi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert