Tíu í haldi vegna árásar í París

Matvöruverslun gyðinga í Porte de Vincennes.
Matvöruverslun gyðinga í Porte de Vincennes. AFP

Tíu manns, þar af maður sem er grunaður um vopnasölu, eru í haldi í tengslum við rannsókn á árás á matvöruverslun gyðinga í París árið 2015.

Claude Hermant, sem bíður annarra réttarhalda í tengslum við ólöglega vopnasölu, var handtekinn á mánudag ásamt öðrum og samkvæmt heimildum AFP-fréttastofunnar er jafnvel talið að fleiri verði handteknir. 

Amedy Coulibaly.
Amedy Coulibaly. AFP

Rannsóknin beinist meðal annars að því hvernig vígamaðurinn, Amedy Coulibaly, varð sér úti um vopnin sem notuð voru í árásinni 9. janúar 2015. 

Coulibaly myrti fjóra eftir að hafa tekið starfsmenn og viðskiptavini í versluninni í gíslingu. Hann var skotinn til bana af sérsveitarmönnum sem réðust inn í húsið nokkrum klukkustundum eftir að Coulibaly réðst þar inn.

Kvöldið áður hafði Coulibaly skotið lögreglukonu til bana í úthverfi Parísar, Montrouge, og telja yfirvöld að hann hafi í upphafi ætlað sér að ráðast til atlögu í skóla gyðinga þar skammt frá.

Árásin í verslun gyðinga var einn hluti af þriggja daga hryðjuverkaógn í frönsku höfuðborginni. Hryllingurinn hófst með árás á ritstjórn Charlie Hebdo-ádeiluritsins þar sem tólf létust. 

Claude Hermant starfaði áður hjá Département Protection et Sécurité, deild …
Claude Hermant starfaði áður hjá Département Protection et Sécurité, deild sem annast öryggismál fyrir Front National. Wikipedia/Marie-Lan Nguyen

Vitað er að vopnin komu frá Slóvakíu og þaðan fóru þau til milligöngumanns í Belgíu áður en þau voru seld til fyrirtækis í eigu unnustu Hermants.

Hermant, sem saksóknari segir að hafi tengsl við öfgahægrihópa í Norður-Frakklandi, og unnusta hans voru yfirheyrð í desember 2015 vegna árásarinnar í verslun gyðinga en ekki ákærð.

Við yfirheyrslur neitaði Hermant að hafa komið að sölu vopnanna og að hafa vitað af undirbúningi árásarinnar.

Samkvæmt frétt Telegraph frá því í desember 2015 var Hermant lífvörður hjá Front National áður en hann tengdist öfgahópum til hægri, Bloc Indentitaire. Hann var áður fallhlífahermaður, málaliði og félagi í Département Protection et Sécurité, innan Front National, segir í frétt Telegraph frá þessum tíma. Málið þótti hið vandræðalegasta fyrir lögregluna þar sem Hermant hefur sagt að hann hafi verið heimildarmaður lögreglunnar varðandi ýmis mál gegn því að hún sæi í gegnum fingur sér með vopnasölu hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert