95.000 flóttamenn á þessu ári frá Suður-Súdan til Súdan

Flóttamenn frá Suður-Súdan bíða eftir læknishjálp á heilsugæslu.
Flóttamenn frá Suður-Súdan bíða eftir læknishjálp á heilsugæslu. AFP

Rúmlega 95.000 suður-súdanskir flóttamenn hafa komið inn í Súdan á þessu ári að sögn Sameinuðu þjóðanna. Ekki er búist við því að lát verði á fjölda flóttamannanna sem flýja stríð og hungur hjá þessari yngstu þjóð heims.

Að sögn stjórnvalda í Suður-Súdan búa milljón manns í landinu við hungur.  

Suður-Súdan var stofnað árið 2011. Frá því í desember 2013 hafa 390.000 manns flúið landið yfir til Súdan vegna borgarastyrjaldar í landinu.

Hins vegar hafa alls 1,6 milljónir flúið Suður-Súdan frá stofnun þess. Sameinuðu þjóðirnar búast við því að bætast muni stöðugt í hópinn á þessu ári.

Stjórnvöld í Súdan hafa opnað nýja leið fyrir neyðarbirgðir til flóttamannanna að sögn Sameinuðu þjóðanna.  Þetta er önnur leiðin sem er opnuð á innan við mánuði og mun hún flytja birgðir frá borginni El Obeid í miðju Súdan til borgarinnar Aweil.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert