Deilt um veggmynd af Obama

Myndin til vinstri er veggmynd Chris Devins. Myndin til hægri …
Myndin til vinstri er veggmynd Chris Devins. Myndin til hægri er verk listanemans Gelilu Mesfin. Báðar myndirnar eru gerðar ofan á ljósmynd eftir Collier Schoor.

Veggmynd af Michelle Obama, fyrrverandi forsetafrú Bandaríkjanna, hefur vakið miklar deilur. Myndin er á húsi í hverfinu sem hún var alin upp í í Chicago. Deilurnar eru ekki af pólitískum toga heldur listrænum.

Veggmyndin er eftir listamanninn og Chicagobúann Chris Devins. Er hann lauk við verkið fyrir nokkrum dögum fór gagnrýninni að rigna inn á netið. 

Devins er sakaður um að hafa stolið hugmyndinni að verkinu, þar sem sjá má Obama í líki afrískrar prinsessu, af listanemanum Gelilu Mesfin. Fyrir ári síðan birti hún nær sams konar mynd af Obama á Instagram-síðu sinni.

Í frétt CNN segir að Mesfin hafi orðið undrandi er hún frétti af verki Devins. „Hvernig getur þú bara stolið listaverki einhvers annars og sagt það vera þitt?“ spurði hún í færslu á Instagram.

Hún sagði eitt að deila verki annars og jafnvel græða á því en að segja það sitt, þegar það er það augljóslega ekki, er „einfaldlega rangt“.

Davins neitar að hafa vísvitandi stolið verkinu. Hann segist ekki hafa haft hugmynd um hver Mesfin væri eða af verki hennar fyrr en einhver fór að bera myndirnar saman fyrir nokkrum dögum. Hann segist þegar í stað hafa sett nafn Mesfin við verkið. „Ég tek þetta á mig og geri það með glöðu geði svo lengi sem börnin hafa veggmynd sem þau geta litið upp til.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert