Læknarnir segja sig frá umönnun Ahmed

Læknar Eman Ahmed, sem var þyngsta kona heims áður en hún gekkst undir aðgerðir í febrúar og mars, hafa sagt sig frá umönnun hennar vegna fullyrðinga fjölskyldu hennar. Fjölskyldan segir læknana hafa logið til um árangur aðgerðanna og hunsað mögulegt heilablóðfall.

Ahmed er 36 ára gömul og vó um hálft tonn þegar hún gekkst undir hjáveituaðgerð og aðrar meðferðir í Mumbai. Að sögn fjölskyldu hennar var hún 5 kg þegar hún kom í heiminn og greind með sogæðabólgu eða vessabjúg. Hún fékk heilablóðfall 11 ára gömul og gat ekki farið út af heimili sínu í aldarfjórðung.

Það var Muffazal Lakdawala, einn helsti sérfræðingur Indlands í hjáveitulækningum, sem framkvæmdi aðgerðina á Ahmed en þegar hann tók við verðlaunum á dögunum tilkynnti hann að Ahmed hefði léttst um 240 kg.

Ummælin reittu systur Ahmed, Shaimaa Selim, til reiði en hún sagði lækna ljúga um þyngdartap Ahmed og heldur því fram að systir hennar sé „eyðilögð“ eftir meðferðina.

Að sögn Selim hefur Ahmed ekki getað tala eða hreyft sig. Þá segir hún hana „bláleita“ og að árangurinn sé enginn.

Læknar Ahmed svöruðu á samskiptamiðlum og birtu myndir sem sýna að Ahmed vegur nú 170 kg. Þá segja þeir rannsóknir hafa ekki sýnt fram á að hún hafi fengið heilablóðfall eins og fjölskyldan heldur fram.

Læknateymið, utan Lakdawala,  hefur sagt sig frá ummönnun Ahmed, vegna særandi fullyrðinga fjölskyldunnar. Ahmed mun áfram fá umönnun og eru „uppsagnirnar“ sagðar táknrænar.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.

Eman Ahmed.
Eman Ahmed. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert