Mikil sprenging við flugvöll

Blossi frá sprengingunni á flugvellinum við Damaskus sást langar leiðir.
Blossi frá sprengingunni á flugvellinum við Damaskus sást langar leiðir. AFP

Gríðarleg sprenging varð í nágrenni alþjóðaflugvallarins í Damaskus í Sýrlandi í dag. Flugvöllurinn er í um 25 kílómetra fjarlægð frá borginni og heyrðu borgarbúar sprenginguna vel. 

Samkvæmt upplýsingum mannréttindasamtakanna Syrian Observatory for Human Rights fylgdi mikill eldur í kjölfar sprengingarinnar. Líbönsk sjónvarpsstöð sem Hezbollah-samtökin reka, segja að mögulega hafi sprengingin orðið eftir loftárás ísraelska hersins. Í frétt sjónvarpsstöðvarinnar segir að henni hafi fylgt eyðilegging en ekkert mannfall.

Í frétt BBC segir að að Ísraelsher hafi gert nokkrar árásir í Sýrlandi í þeim tilgangi að hindra vopnaflutninga til Hezbollah-hreyfingarinnar.

Ísraelskur ráðherra, Israel Katz, staðfestir ekki beinlínis að sprengingin á flugvellinum sé af völdum loftárásar hers lands síns en segir við BBC að árásin „samræmist stefnu Ísraela“ um að hefta flutning vopna.

Hezbollah-hreyfingin hefur sent liðsmenn sína til átaka í Sýrlandi í nokkur ár. Hreyfingin styður ríkisstjórn landsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert