„New York Times, hálfvitar“

Rodrigo Duterte (t.v.) gengur ásamt soldáninum í Brunei framhjá heiðursverði …
Rodrigo Duterte (t.v.) gengur ásamt soldáninum í Brunei framhjá heiðursverði við forsetahöllina. AFP

Rodrigo Duterte forseti Filippseyja segir að á New York Times vinni hálfvitar og hafnar alfarið gagnrýni blaðsins á stríð hans gegn fíkniefnum.

Duterte var ekki kátur með leiðara blaðsins undir fyrirsögninni: „Látum heimsbyggðina fordæma Duterte“. Í greininni voru dráp forsetans á þúsundum grunuðum fíkniefnaneytendum og sölum gagnrýnd harðlega. 

„New York Times, hálfvitar,“ sagði Duterte við fjölmiðla í forsetahöllinni er hann tók á móti soldáninum í Brunei. Soldáninn er gestur Duterte á ráðstefnu sem hann hefur boðið leiðtogum Suðuaustur-Asíu til. 

Duterte notaði tækifærið og gagnrýndi New York Times fyrir að virða að vettugi ofbeldisverk bandaríska hersins um heim allan. Þá sagði hann að hætta ætti að gefa dagblaðið út.

Leiðari New York Times var birtur í kjölfar frétta um að filippseyskur lögfræðingur hafi í vikunni formlega farið fram á það að Alþjóða glæpadómstóllinn í Haag myndi ákæra Duterte og ellefu aðra ráðamenn á Filippseyjum fyrir fjöldamorð og glæpi gegn mannkyni. 

Í leiðaranum var tekið undir kröfu lögmannsins og kallað eftir því að dómstóllinn myndi hefja rannsókn á málinu.

Duterte hét því fyrir síðustu kosningar að drepa tugþúsundir „glæpamanna“. Hann hefur staðið við orð sín og uppskorið fordæmingu víða á Vesturlöndum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert