Senda fangana aftur til Kambódíu

Fangar í bíl í Kambódíu.
Fangar í bíl í Kambódíu. AFP

Forsætisráðherra Kambódíu, Hun Sen, biður bandarísk stjórnvöld um að hætta að senda dæmda glæpamenn af kambódískum uppruna til landsins. Hann segir að með aðgerðum sínum sé fjölskyldum sundrað.

Bandarísk stjórnvöld hafa sent meira en 500 dæmda afbrotamenn til Kambódíu á grundvelli samkomulags sem gert var á milli ríkjanna. Mennirnir eru af kambódískum uppruna en hafa margir hverjir verið aldir upp í Bandaríkjunum og hafa lítil eða engin tengsl við Kambódíu. Þegar þeir eru sendir þangað eiga þeir erfitt uppdráttar þar sem þeir tala ekki tungumálið og þekkja ekki samfélagið sem er gjörólíkt því sem þeir eiga að venjast í Bandaríkjunum.

„Bandaríkjamenn eru sniðugir. Þeir halda aðeins góða fólkinu en senda fanga frá landi sínu til okkar,“ segir Hun Sen, sem hefur verið forsætisráðherra Kambódíu í meira en þrjá áratugi. „Ég vona að guðfaðir mannréttinda, sem Bandaríkin eru, muni breyta samkomulaginu og bjóða dæmdum Kambódíumönnum tækifæri til að dvelja í Bandaríkjunum með fjölskyldum sínum.“

Samkomulagið var gert fyrir fimmtán árum. Það er tvíhliða þannig að bæði ríkin geta á grundvelli þess sent dæmda ríkisborgara landanna á milli sín. Nú vilja Kambódíumenn hins vegar endurskoða samkomulagið.

Talsmaður utanríkisráðuneytisins í Kambódíu segir að samkomulagið feli í sér „tvöfalda refsingu“ fyrir hina dæmdu afbrotamenn. Þeir hljóti fangelsisdóm en einnig brottvísun frá landi sem í mörgum tilvikum er orðið þeirra heimaland.

Bandaríkjamenn tóku við miklum fjölda flóttamanna frá Kambódíu eftir þjóðarmorðin þar í landi undir stjórn Pol Pot og Rauðu Khmeranna. Þá studdu þeir einnig uppbyggingu landsins fjárhagslega. 

Á síðustu árum hefur sambandið milli ríkjanna kulnað nokkuð og stjórnvöld í Kambódíu hafa hallast meira að þeim kínversku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert