Systir Boris Johnson í framboð?

Rachel Johnson.
Rachel Johnson. Ljósmynd/Habie Schwarz

Talið er að Rachel Johnson, systir Boris Johnson utanríkisráðherra Bretlands, hafi gengið til liðs við Frjálslynda demókrata þar í landi og sé jafnvel á leið í framboð með stuðningi þeirra í þeim tilgangi að berjast gegn útgöngu Breta úr Evrópusambandinu.

Bróðir Johnsons var einn helsti leiðtogi þeirra sem börðust fyrir því að Bretland gengi úr Evrópusambandinu í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem fram fór þar í landi síðasta sumar þar sem meirihluti breskra kjósenda samþykkti útgönguna.

Hún var áður meðlimur í breska Íhaldsflokknum sem bróðir hennar situr á þingi fyrir en gekk úr flokknum árið 2011. Í aðdraganda þjóðaratkvæðisins var hún ötull talsmaður þess að Bretar yrðu áfram í Evrópusambandinu. 

Fram kemur á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph að Johnson hafi til þessa talið það skyldu sína að kjósa Íhaldsflokkinn þar sem tveir bræður hennar væru á þingi fyrir flokkinn. Frjálslyndir demókratar hafa ekki viljað staðfesta fréttina á þeim forsendum að félagaskrá flokksins sé trúnaðarmál.

Hins vegar kemur fram að Johnson geti líklega ekki farið í framboð fyrir Frjálslynda demókrata þar sem reglur flokksins geri kröfu um að frambjóðendur hafi verið meðlimir í honum í að minnsta kosti ár. Hins vegar gætu þeir stutt hana sem sjálfstæðan frambjóðanda með því að bjóða ekki fram gegn henni.

Sjónvarpsstöðin Channel 4 segir að Johnson hafi haft samband við Nick Clegg, fyrrverandi leiðtoga Frjálslyndra demókrata til þess að ræða mögulegt framboð hennar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert