Verkamenn kjósa íhaldið

AFP

Verkalýðurinn flykkist um Íhaldsflokkinn segir í frétt breska dagblaðsins Daily Telegraph. Fylgið kemur einkum frá Verkamannaflokknum sem á við mikla erfiðleika að etja á meðan allt virðist ganga íhaldsmönnum í hag. Hugsanlegt er þó að fylgið komi að hluta til óbeint frá Verkamannaflokknum með viðdvöl í Breska sjálfstæðisflokknum.

Fylgi síðastnefnda flokksins hefur hrunið og virðist aðallega hafa farið yfir til Íhaldsflokksins en þingkosningar verða í Bretlandi 8. júní í sumar. Flest bendir til þess að Íhaldsflokkurinn undir forystu Theresu May forsætisráðherra vinni stórsigur en flokkurinn er við stjórnvölinn nú með nauman meirihluta í neðri deild breska þingsins.

Samkvæmt fréttum breska blaðsins kann Íhaldsflokkurinn að bæta við sig tugum nýrra þingsæta og einkum á kostnað Verkamannaflokksins. Allt að sextíu sætum. Ástæðan er ekki síst fylgisaukning Íhaldsflokksins á kostnað Breska sjálfstæðisflokksins.

Kosningakerfið breska veldur þessu en þar eru einmenningskjördæmi og nær sá frambjóðandi kjöri sem fær flest atkvæði. Verkamannaflokkurinn hefur í mörgum kjördæmum hagnast á því að fylgi hægra megin hefur skipst á milli Íhaldsflokksins og Breska sjálfstæðisflokksins. Þar hefur stundum ekki munað ýkjamörgum atkvæðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert