Fjórir handteknir vegna barnsráns

Eftirlitsstöð í þorpinu Deryneia á Kýpur en eyjan skiptist í …
Eftirlitsstöð í þorpinu Deryneia á Kýpur en eyjan skiptist í tvennt, grískan og tyrkneskan hluta. AFP

„Við höfum handtekið fjóra. Þrír þeirra eru Kýpurbúar og einn er Sýrlendingur,“ segir talsmaður lögreglunnar á Kýpur, Panagiota Georgiou, í samtali við norska ríkisútvarpið. Fjögurra ára gamalli norskri stúlku (hún verður fjögurra ára eftir nokkra daga) var rænt fyrir utan leikskóla á Kýpur í gærmorgun. Talið er fullvíst að stúlkan sé hjá föður sínum en hvorki hann né stúlkan eru komin fram. Fjórmenningarnir voru handteknir á Kýpur en þeir eru á aldrinum 47, 44, 39 og 33 ára en Sýrlendingurinn er yngstur þeirra. 

Aftenposten ræddi við lögmann föður stúlkunnar í gær og segir hann að stúlkan sé hjá föður sínum.

Lögmaðurinn, Morten Engesbak, segir í samtali við Aftenposten að hann hafi rætt við föður stúlkunnar sem staðfesti að hún sé hjá honum og að þau hafi það gott. Að öðru leyti muni hann ekki tjá sig um málið. Lögreglan á Kýpur og í Noregi hefur staðfest við Aftenposten að stúlkan sé hjá föður sínum. Engesbak hefur ekki viljað upplýsa hvar faðirinn heldur sig með dótturina. Talið er fullvíst að faðirinn sé á eyjunni með dóttur sína.

Grímuklæddir menn rændu stúlkunni fyrir utan leikskóla hennar í höfuðborg Kýpur, Nicosia, í gærmorgun. Fljótlega var gefin út alþjóðleg handtökuskipun á hendur föður hennar en móðirin var nýkomin með stúlkuna á leikskólann þegar henni var rænt. Ræningjarnir voru tveir og keyrðu á brott á ofsahraða á Range Rover-jeppa.

Faðir stúlkunnar býr í Noregi en móðir stúlkunnar er frá gríska hluta Kýpur. Þau eru skilin. Lögreglan á Kýpur hefur einnig lýst eftir stúlkunni en hún var klædd í bleikan stuttermabol og „leggings“ þegar henni var rænt.

Lögreglan biðlar til almennings um, að ef fólk hefur einhverjar upplýsingar um hvar stúlkuna sé að finna og eða ökutækið, að hafa samband strax.

Talið er fullvíst að ránið núna tengist fyrri tilraun til þess að ræna stúlkunni. Í febrúar 2016 var norskur málaliði og tveir aðrir Norðmenn handteknir í Nicosia, á landamærastöð sem skilur á milli grískumælandi og tyrkneskumælandi hluta eyjunnar. Þeir voru handteknir í kjölfar fregna um að þeir væru staddir á eyjunni í þeim eina tilgangi að ræna stúlkunni frá móður sinni.

Móðirin hefur fengið forræði yfir stúlkunni fyrir dómstólum á Kýpur en svo virðist sem norsk yfirvöld taki undir að stúlkan sé ekki búsett í Noregi en faðirinn heldur því fram að móðirin hafi farið með stúlkuna úr landi árið 2015 án heimildar. Tekið skal fram að mjög misvísandi fréttir eru af forræðisdeilu foreldranna í fjölmiðlum. Mennirnir voru látnir lausir vegna skorts á sönnunargögnum og fengu að fara frá Kýpur. Þeir voru síðar dæmdir í Noregi en síðan var málinu vísað frá á æðra dómstigi.

Norski málaliðinn, Espen Lee, sem var handtekinn á Kýpur í fyrra, neitar því að hafa komið að ráninu í gær.

Samkvæmt frétt VG hafa þær mæðgur farið huldu höfði frá því lögregla varaði hana við því að Lee hygðist ræna stúlkunni.

Aftenposten

NRK

VG

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert