Hætta á meiri háttar átökum

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir að þrátt fyrir að hann vilji leysa deilurnar á Kóreuskaganum sé hætta á meiri háttar átökum á svæðinu. Trump vonast til þess að hægt verði að leysa pattstöðuna sem er vegna kjarnorku- og eldflaugaáætlunar Norður-Kóreu með diplómatískum leiðum.

Bandarísk yfirvöld hafa ítrekað reynt undanfarna daga að fá yfirvöld í Norður-Kóreu ofan af því að gera kjarnorkuvopnatilraunir. Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir að Bandaríkin séu reiðubúin til þess að hefja beinar viðræður við yfirvöld í N-Kóreu en þau yrðu að vera reiðubúin til þess að leggja sitt af mörkum.

Harry Harris, yfirmaður herafla Bandaríkjahers á Kyrrahafi, segir að deilurnar við Norður-Kóreu séu þær alvarlegustu sem hann hafi upplifað á þessu svæði.

Trump tekur í svipaðan streng en í viðtali við Reuters segir Trump að þetta geti endað með gríðarlegum átökum við Norður-Kóreu. Trump hrósar forseta Kína, Xi Jinping, fyrir hans þátt í að reyna að leysa deiluna á Kóreu-skaganum. Hann segir að Xi reyni eins og hann geti til þess að leysa deiluna enda hafi hann ekki áhuga á ringulreið og mannfalli.

„Hann vill ekki sjá slíka hluti gerast. Hann er góður maður. Hann er mjög góður maður og ég þekki hann mjög vel,“ segir Trump.

Frétt Reuters

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert