Michelle Obama vill ekki verða forseti

Michelle Obama, fyrrverandi forsetafrú Bandaríkjanna.
Michelle Obama, fyrrverandi forsetafrú Bandaríkjanna. AFP

Fyrrverandi forsetafrú Bandaríkjanna, Michelle Obama, mun aldrei sækjast eftir því að verða forseti landsins. Hún segist aldrei mundu leggja slíkt á börnin sín aftur.

Þetta kemur fram í frétt CNN en í gær hélt Obama sína fyrstu ræðu eftir að eiginmaðurinn, Barack Obama, lét af embætti forseta í byrjun árs.

Ræðuna hélt hún á ráðstefnu stofnunar um arkitektúr, America Institute of Architecture, sem fram fór í Orlando. Í ræðunni sagði hún að lífið í Hvíta húsinu hefði tekið á fjölskylduna.

Allar myndatökur voru bannaðar undir flutningi ræðunnar. Obama sagði að hún gæti lagt hönd á plóg sem óbreyttur borgari, án þess að þurfa að vera í hinu pólitíska sviðsljósi.

Obama hyggst starfa áfram við að efla ungar stúlkur og konur um allan heim og bæta aðbúnað þeirra. 

Obama sagðist þakklát fyrir að hafa ekki allar byrðar heimsins á sínum herðum lengur. Hún sagði að líf sitt nú væri allt öðruvísi. „Vinir mínir eru hissa að ég komi nú sjálf til dyra,“ sagði hún og bætti við að dætur hennar, Sasha og Malia, gætu nú opnað glugga herbergja sinna, sem þær gátu aldrei gert í Hvíta húsinu. Obama rifjaði upp að dæturnar hafi eitt sinn reynt að opna glugga í Hvíta húsinu til að heyra í mótmælendum sem voru fyrir utan. 

Þá segir Obama að hundarnir tveir, Bo og Sunny, hafi aldrei fyrr heyrt í dyrabjöllu en í Hvíta húsinu er engin slík bjalla.

Forsetafrúin fyrrverandi sagði það hafa verið ljúfsárt að yfirgefa Hvíta húsið. Hún hefði búið þar lengur en á nokkrum öðrum stað. Þá hafi dætur hennar alist þar upp.

Michelle og Barack Obama hafa haldið sig til hlés frá því að hann lét af embætti. Þau eru nú að njóta lífsins utan sviðsljóssins. Þau eru m.a. að vinna að endurminningum sínum sem verða gefnar út hjá Penguin Random House. 

Hjónin ætla að búa í Washington þar til dætur þeirra hafa báðar útskrifast úr menntaskóla árið 2019.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert