Norska stúlkan enn ófundin

AFP

Fjórir menn sem eru grunaðir um aðild að barnsráni á Kýpur hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald í þrjá daga. Bifreiðin, sem lögreglan telur að hafa verið notuð við ránið á tæplega fjögurra ára gamalli norskri stúlku í gær, fannst við heimili eins þeirra. Stúlkan og faðir hennar eru ófundin en staðfest hefur verið að hún sé með föður sínum og hann er grunaður um að hafa fengið mennina til að ræna henni.

Leif Torkel Grimsrud faðir stúlkunnar.
Leif Torkel Grimsrud faðir stúlkunnar. Interpol

Fjórmenningarnir, þrír Kýpurbúar á fertugs- og fimmtugsaldri, og rúmlega þrítugur Sýrlendingar, voru handteknir fyrr í morgun en leiddir fyrir dómara á hádegi í Nicosia.

Gefin var út samevrópsk handtökuskipun á hendur föður stúlkunnar í gær en hann hefur átt í harðvítugum forræðisdeilum við móður stúlkunnar. Hann er norskur en hún er grísk-kýpversk. Dómstóll á Kýpur úrskurðaði henni forræðið yfir stúlkunni en faðirinn sakar móðurina um að hafa farið með stúlkuna frá Noregi án heimildar.

Marie Eleni Grimsrud.
Marie Eleni Grimsrud. Skjáskot in-Cyprus

Norskur dómstóll hefur einnig dæmt móður stúlkunnar í vil, það er að stúlkan sé tengd Kýpur nánari böndum en Noregi. Aftur á móti hafi faðirinn rétt á að hitta dóttur sína.

Þrír Norðmenn, þar á meðal þekktur málaliði, voru handteknir í fyrra vegna gruns um að þeir ætluðu að ræna stúlkunni. Talið er að faðirinn sé með dóttur sína á Kýpur en ef hann hefur komist yfir á Tyrklandshluta eyjunnar getur reynst þrautin þyngri að nálgast þau því engir framsalssamningar eru í gildi við önnur lönd. Aftur á móti hafa lögregluyfirvöld á Norður-Kýpur (sem er tyrkneski hluti eyjunnar) einnig lýst eftir föður stúlkunnar og hið sama hefur tyrkneska lögreglan gert. Þar sem mikið eftirlit er á milli svæða á Kýpur, það er á milli gríska hlutans og þess tyrkneska, er talið að hann hafi ekki farið yfir á þann hluta eyjunnar. 

VG ræddi við lögmann móður stúlkunnar á Kýpur í dag og segir hann að hún vilji ekki ræða við fjölmiðla. En hún vonist til þess að handtökutilskipun Interpol muni leiða til þess að hann verði handtekinn. 

Interpol

Frétt VG

Frétt In Cyprus

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert