Mótmælendur réðust inn í þinghúsið

Frá átökunum við þinghúsið.
Frá átökunum við þinghúsið. AFP

Mótmælendur réðust inn í þinghúsið í Skopje, höfuðborg Makedóníu, í dag í kjölfar þess að þingmaður af albönskum uppruna, Talat Xhaferi, var kjörinn forseti þingsins.

Tíu manns slösuðust í átökum sem brutust út vegna atviksins. Þar á meðal Zoran Zaev, leiðtogi jafnaðarmanna, sem lá eftir blóðugur í framan. Kröfðust mótmælendurnir nýrra kosninga en þeir eru stuðningsmenn fyrrverandi forsætisráðherra landsins, Nikola Gruevski.

Zoran Zaev, leiðtogi jafnaðarmanna, blóðugur eftir að mótmælendur réðust á …
Zoran Zaev, leiðtogi jafnaðarmanna, blóðugur eftir að mótmælendur réðust á hann. AFP

Stjórnmálaástandið í Makedóníu hefur verið í uppnámi síðan þingkosningar fóru fram í landinu í desember sem skiluðu samstarfi jafnaðarmanna og flokka sem sækja fylgi sitt til fólks af albönskum uppruna. Ríkisstjórn flokkanna hefur þó ekki tekið við völdum þar sem forseti Makedóníu, Gjorge Ivanov, hefur komið í veg fyrir það.

Makedónskir þjóðernissinnar hafa mótmælt á götum úti frá því að Zaev hóf að reyna stjórnarmyndun. Lögreglan reyndi að tvístra mótmælendum svo stjórnmálamenn kæmust úr þinghúsinu. Fólk af albönskum uppruna er um fjórðungur íbúa Makedóníu.

Breska ríkisútvarpið BBC greinir frá þessu.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert