Taka harða afstöðu til Brexit

Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, ræðir við blaðamenn í dag …
Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, ræðir við blaðamenn í dag eftir fund ráðsins. AFP

Forystumenn ríkja Evrópusambandsins að Bretlandi undanskildu samþykktu í dag einróma sameiginlegar áherslur vegna fyrirhugaðra viðræðna við bresk stjórnvöld um útgöngu Breta úr sambandinu (Brexit) á fundi sínum í Brussel í Belgíu. Einungis tók fjórar mínútur að samþykkja áherslurnar og fagnaði Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, samstöðu leiðtoganna sem væri mikilvægt veganesi í viðræðurnar.

Fundurinn í dag var fyrsti fundur leiðtogaráðsins frá því að Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, virkjaði formlega úrsagnarákvæði Lissabon-sáttmálans, æðstu löggjafar Evrópusambandsins, en Bretar hafa verið innan sambandsins og forvera þess síðan árið 1973. Áherslurnar kveða meðal annars á um að ekki sé hægt að hefja viðræður um framtíðartengsl Bretlands við Evrópusambandið, eins og um fríverslunarsamning, fyrr en gagnkvæm réttindi borgara sambandsins og Bretlands hafa verið tryggð.

Enn fremur eru sett skilyrði fyrir fríverslunarviðræðum, að bresk stjórnvöld standi við fjárhagslegar skuldbindingar sem Evrópusambandið segir Bretland bera, gengið verði frá fyrirkomulagi varðandi landamæri Norður-Írlands, sem tilheyrir breska konungdæminu, og Írlands sem er innan sambandsins. Ásættanlegur árangur verði að hafa átt sér stað í þessum efnum áður en hægt verði að ræða um viðskiptasamning.

Telja að viðræðurnar taki meira en tvö ár

Leiðtogar Evrópusambandsins telja líklegt að viðræðurnar við Bretland taki lengri tíma en þau tvö ár sem kveðið er á um í Lissabon-sáttmálanum frá því að úrsagnarákvæðið er virkjað. Fyrir vikið er opnað á aðlögunartímabil sem gæti staðið í nokkur ár. Tekið er skýrt fram að slíkt tímabil megi ekki standa of lengi og að afmarka verði því skýr tímamörk. Bretar verði áfram undir Evrópusambandið og dómstól þess settir á meðan.

Þá kemur fram að mögulegur fríverslunarsamningur geti ekki náð til Gíbraltar nema með sérstöku samþykki Spánverja. Tusk sagði eftir fundinn að boltinn væri núna hjá Bretum. Beðið yrði eftir skýrum viðbrögðum frá breskum stjórnvöldum í kjölfarið. Aðalsamningamaður Evrópusambandsins, Michel Barnier, hefur sagt að hann vonist til þess að samningurinn um úrsögn Breta úr sambandinu liggi fyrir næsta haust.

Formlegar viðræður hefjast þó að öllum líkindum ekki fyrr en eftir þingkosningarnar í Bretlandi 8. júní. May hefur sagt að tilgangurinn með því að boða til kosninganna sé að fá sterkara umboð til þess að fylgja eftir niðurstöðu þjóðaratkvæðisins síðasta sumar þar sem meirihluti breskra kjósenda samþykkti að segja skilið við Evrópusambandið. Skoðanakannanir hafa til þessa bent til þess að henni verði að þeirri ósk sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert