Trump um eldflaugaskotið: „Slæmt!“

Bandaríski utanríkisráðherrann Rex Tillerson á fundi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í …
Bandaríski utanríkisráðherrann Rex Tillerson á fundi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í gær. AFP

Eldflaugin sem Norður-Kóreumenn skutu á loft í tilraunaskyni sprakk yfir landi skömmu síðar. Þetta segir talsmaður í bandaríska hernum. Tilraunin var gerð aðeins skömmu eftir að utanríkisráðherra Bandaríkjanna ávarpaði öryggisráð Sameinuðu þjóðanna þar sem hann hvatti til hertari refsiaðgerða gegn stjórnvöldum í Norður-Kóreu.

Donald Trump Bandaríkjaforseti segir að skotið hafi verið gert til að lítilsvirða Kínverja en þeir hafa hingað til verið helstu bandamenn Norður-Kóreumanna. Í gær lýstu kínversk stjórnvöld því yfir að þau væru tilbúin að miðla málum svo að tilraunum með kjarnavopn í Norður-Kóreu verði hætt.

Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði á fundi öryggisráðsins í gær að afleiðingar af tilraunum Norður-Kóreu gætu orðið „hamfarakenndar“ ef alþjóða samfélagið, með Kínverja í broddi fylkingar, myndi ekki bregðast við. Aðeins fáum tímum síðar skutu Norður-Kóreumenn eldflauginni á loft.

Tillerson segir að hernaðaríhlutun af hálfu Bandaríkjamanna sé enn „uppi á borðinu“.

Tilraunaskotið í gær mistókst að sögn Suður-Kóreumanna en hefur engu að síður magnað enn og aftur spennu á Kóreuskaga en á leiðinni að ströndum hans er nú hluti af flota bandaríska hersins. 

Trump varaði við því í viðtali í fyrradag að möguleiki á „stórkostlegum átökum“ væri fyrir hendi. Hann sagðist þó fremur kjósa sáttaleið.

„Norður-Kórea vanvirðir óskir Kína og háttvirts forseta þess lands er hún skaut, þó það hefði mistekist, eldlaug á loft í dag. Slæmt!“ skrifaði Trump á Twitter.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert