Vísað frá Kína og komin heim

Sandy Phan-Gillis er bandarískur ríkisborgari. Hún var dæmd fyrir njósnir …
Sandy Phan-Gillis er bandarískur ríkisborgari. Hún var dæmd fyrir njósnir í Kína.

Bandarískri konu sem dæmd hefur verið fyrir njósnir í Kína hefur verið vísað frá landinu. Þetta segja mannréttindasamtök sem hafa barist fyrir frelsun hennar. 

Sandy Phan-Gillis var hneppt í varðhald í mars árið 2015 við landamærin að Macau eftir að hafa verið á ferð í Kína ásamt viðskiptasendinefnd frá Texas-borg.

Hún var sökuð um njósnir, að stela ríkisleyndarmálum og að hafa ætlað að koma trúnaðarupplýsingum til þriðja aðila. Hún var dæmd í þriggja og hálfs árs fangelsi og svo vísað úr landi á miðvikudag.

Í yfirlýsingu frá mannréttindahópnum Dui Hua segir að hún sé nú komin til Los Angeles þar sem eiginmaður hennar og fleiri fjölskyldumeðlimir tóku á móti henni.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hitti Xi Jinping forseta Kína í Flórída fyrir þremur vikum. Var markmið fundarins að styrkja tengslin milli landanna tveggja. 

Utanríkisráðherra Kína segir að frá fundinum hafi forsetarnir tveir verið í stöðugu sambandi. 

Mannréttindasamtökin segja að samningaviðræður um lausn Phan-Gillis hafi farið að ganga vel eftir að Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, heimsótti Peking í mars á þessu ári. Í kjölfarið hafi fundist farsæl lausn á málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert