Hlógu að alvarlega slasaðri konu

Wikipedia

Tveir þýskir karlmenn eru sakaðir um að hafa hreytt rasískum ókvæðisorðum í unga egypska konu þar sem hún lá blóðug á götu í háskólaborginni Cottbus í Brandenburg-fylki í Þýskalandi 15. apríl eftir að félagi þeirra hafði ekið á hana samkvæmt fréttavefnum Thelocal.de.

Málið hefur vakið mikla reiði og óhug í Þýskalandi vegna framkomu mannanna en konan lést þremur dögum seinna vegna meiðsla sinna. Hún var 22 ára gamall skiptinemi sem stundaði nám við Tækniháskóla Brandenburg. Hún hafði verið að skemmta sér með vinum og var á heimleið þegar hún varð fyrir bifreiðinni. Konan hafði beðið eftir að taka sporvagn en lagði síðan af stað yfir götuna og tók ekki eftir bifreiðinni sem ekið var yfir hámarkshraða.

Lögreglan hóf fyrst í stað einungis rannsókn á slysinu sem tvítugur bílstjóri bifreiðarinnar olli. Hins vegar breytti málið um stefnu fyrir helgi þegar vísbendingar komu fram um að það hefði ekki aðeins snúist um gáleysislegan akstur. Vitni að slysinu greindi fjölmiðlum frá því hvernig ungu mennirnir hefðu brugðist við þegar þeir sáu konuna á götunni.

Kölluðu konuna „helvítis hælisleitanda“

Bílstjórinn var yfirvegaður en tveir farþegar hans gengu að konunni og hlógu og gerðu grín að henni að sögn vitnisins en hópur fólks safnaðist saman á slysstaðnum eftir að það hafði átt sér stað. Meðal annars hefðu mennirnir sagt konunni að hunskast til heimalands síns ef hún vildi ekki að keyrt yrði á hana. Kölluðu þeir hana „helvítis hælisleitanda“.

Einnig sagði annar þeirra að sögn vitnisins: „Ég veit að það eru engar götur þar sem þú kemur frá en í Þýskalandi þarftu að passa hvar þú gengur.“ Fram kemur í fréttinni að lögreglan hafi yfirheyrt fleiri vitni sem hafi staðfest frásögnina. Hafin sé lögreglurannsókn á framgöngu mannanna tveggja vegna meintrar hatursorðræðu.

Einnig er til rannsóknar hvers vegna lögreglumenn á vettvangi könnuðu ekki hvort um slíkt væri að ræða en lögreglumönnum er skylt að taka það til skoðunar í öllum glæpamálum í Brandenburg þar sem töluverður stuðningur er við hægriöfgamenn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert