Mannfall í ofsaveðri

Dimmt yfir þar sem skýstrókarnir hafa farið um.
Dimmt yfir þar sem skýstrókarnir hafa farið um. Skjáskot/CNN

Björgunarsveitir leita logandi ljósi að fólki á lífi í rústum húsa eftir að skýstrókar fóru um og ollu mikilli eyðileggingu í þremur ríkjum Bandaríkjanna. Að minnsta kosti sex eru látnir.

Fjórir létust er þrír skýstrókar fóru um austurhluta Texas í gær. Í suðvesturhluta Missouri lést öldruð kona eftir að flóðvatn hrifsaði bíl hennar út af vegi. Þá féll tré ofan á konu í Arkansas með þeim afleiðingum að hún lést.

Í Texas ollu skýstrókarnir og flóð sem þeim fylgdu miklum skemmdum. Fimmtíu slösuðust. Enn er hætta vegna veðursins og búa um 30 milljónir manna á þeim svæðum þar sem flóðahætta hefur skapast.

Veðrið tók að versna á föstudag og hafa því fylgt miklar rigningar.

Frétt CNN.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert