Trump segir Kim „snjalla smáköku“

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hrósaði leiðtoga Norður-Kóreu, Kim Jong-un, í sjónvarpsviðtali og kallaði hann „nokkuð snjalla smáköku“ (e. a pretty smart cookie).

Spenna á milli Bandaríkjanna og Norður-Kóreu hefur magnast töluvert síðustu daga og vikur. Bandaríkjamenn eru ósáttir við kjarnorkuvopnatilraunir Norður-Kóreumanna og segjast tilbúnir í stríð, þurfi til þess að koma. Þeir hafa einnig beðið Kínverja, helstu bandamenn Norður-Kóreumanna, um aðstoð. 

Trump segist ekki hafa hugmynd um hvort Kim sé óbrjálaður. Hann segir hann hafa fengið stórt hlutverk er hann þurfti að taka við leiðtogahlutverkinu í landi sínu aðeins 27 ára að aldri. 

„Hann þarf að eiga við augljóslega mjög erfitt fólk, sérstaklega hershöfðingjana og fleiri. Og svona ungur. Samt tókst honum að halda völdum,“ sagði Trump í viðtali sem sýnt var á CBS-sjónvarpsstöðinni í dag. 

„Ég er sannfærður um að fullt af fólki hafi reynt að taka af honum völdin, hvort sem það var frændi hans eða einhver annar. Og hann stóðst það. Svo augljóslega er hann nokkuð snjöll smákaka,“ sagði Trump. „Við stöndum frammi fyrir ástandi sem við getum einfaldlega ekki horft upp á mörg ár í viðbót.“

Nýjasta tilraun Norður-Kóreu var gerð á laugardag er skotið var á loft langdrægri eldflaug. Tilraunaskotið misheppnaðist. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert