„Verðum að halda í vonina“

Foreldrar Madeleine McCann, sem hvarf fyrir tíu árum, heita því að gera „hvað sem er“ til að finna dóttur sína. 3. maí eru nákvæmlega tíu ár liðin frá hvarfi hennar.

„Þetta hefur ekki gengið eins hratt og við höfðum vonað. Það hefur hins vegar verið gangur í þessu og ég held að við verðum bara að halda í vonina og gera hvað sem er, eins lengi og við þurfum,“ sagði Kate McCann, móðir Madeleine, í viðtali við BBC í morgun.

Madeleine var þriggja ára gömul þegar hún hvarf úr hótelíbúð í Praia da Luz í Portúgal þar sem hún var í fríi ásamt foreldrum sínum í maí árið 2007.

Þrátt fyrir fjölda grunsemda og kenninga um hvað gerðist hefur enginn verið sakfelldur vegna hvarfsins. „Ég er alveg jafnvongóð um að Madeleine sé þarna úti og ég var fyrir næstum því tíu árum,“ sagði Kate.

Breska lögreglan hóf nýja rannsókn vegna hvarfsins fyrir sex árum en dró aðeins úr henni árið 2015. Scotland Yard sagðist í síðustu viku enn vera að rannsaka málið.

„Rannsókn bresku lögreglunnar hefur tekið mikla pressu af okkur. Eftir að portúgölsku rannsókninni lauk var enginn að reyna að gera neitt til að finna Madeleine,“ sagði faðir hennar, Gary McCann. 

Foreldrarnir hétu því einnig að þau myndu halda áfram málaferlum gegn portú­galska fyrr­ver­andi lög­reglu­stjór­ianum Goncalo Am­aral, sem hélt því fram í bók að hjón­in hafi falið lík Madeleine. Hún hafi lát­ist af slys­för­um en hjón­in reynt að láta líta út fyr­ir að henni hafi verið rænt.

„Dagarnir eru flestir svipaðir. 3. maí verður það líka en minnir á hræðilegan tíma sem er búið að stela frá okkur,“ skrifaði Kate á Facebook-síðu sína.

Kate McCann og Gerry McCann, foreldrar Madeleine.
Kate McCann og Gerry McCann, foreldrar Madeleine. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert