Ekkert samkomulag um afskriftir

Fjármálaráðherra Grikklands, Euclid Tsakalotos, mætir til fundarins í dag.
Fjármálaráðherra Grikklands, Euclid Tsakalotos, mætir til fundarins í dag. AFP

Fjármálaráðherrar evruríkjanna funda nú í Brussel og freista þess að ná saman um nýjan lánapakka til handa Grikkjum en gríska þingið samþykkti í síðustu viku sársaukafullar aðhaldsaðgerðir til að uppfylla kröfur hinna evrulandanna.

Lánapakkinn, sem samið var um árið 2015, myndi gera grískum stjórnvöldum kleift að greiða upp 7 milljarða evra lán sem fellur á gjalddaga í júlí.

„Ég á von á og er að vinna að því að ná samkomulagi í dag en það verður ekki endanleg útgáfa,“ sagði Jeroen Dijsselbloem, leiðtogi hópsins, þegar hann mætti til viðræðnanna í dag.

Dijsselbloem sagði formlega skuldbindingu um afskriftir skulda Grikklands aldrei myndu liggja fyrir fyrr en á næsta ári en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur kallað eftir ákvörðun þar um innan tíðar.

„Það er kominn tími til að AGS hoppi um borð,“ sagði Dijsselbloem um afstöðu sjóðsins, sem hefur gert frekari skuldaafskriftir að skilyrði fyrir þátttöku sinni í þriðja og síðasta lánapakkanum til Grikklands.

Fjármálaráðherra Hollands, Jeroen Dijsselbloem, vonast eftir samkomulagi um lánapakkann en …
Fjármálaráðherra Hollands, Jeroen Dijsselbloem, vonast eftir samkomulagi um lánapakkann en segir engan formlegan samning um afskriftir munu liggja fyrir fyrr en í fyrsta lagi á næsta ári. AFP

Mikið skilur á milli AGS og evruríkjanna, sérstakleg Þýskalands, hvað varðar afskriftirnar.

„Ég vonast til þess að við getum komist að pólitískri niðurstöðu í dag en við getum eðlilega ekki lagt lokahönd á þetta þar sem við bíðum enn fylgispektarskýrslu og annarra smáatriða,“ sagði fjármálaráðherrann Wolfgang Schaeuble.

Ef kemur til frekari tafa mun það valda mikilli reiði í Grikklandi, þar sem stjórnvöld hafa sem fyrr segir uppfyllt erfiða skilmála evruríkjanna.

„Landið okkar hefur uppfyllt skyldur sínar fullkomlega og í tæka tíð,“ sagði fjármálaráðherrann Euclid Tsakalotos fyrir fundinn í dag. „Það eru engar afsakanir gildar hvað varðar skuldaafskriftirnar.“

Emmanuel Macron, nýkjörinn forseti Frakklands, sagði í samtali við Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, að hann styddi afskriftir til handa Grikklandi. Sagðist hann hlynntur samkomulagi um að aflétta skuldaþunga landsins yfir einhvern tíma.

Í Þýskalandi hafa stjórnvöld stigið varlegar til jarðar, þar sem fyrirheit um frekari afskriftir eru talin munu fara öfugt ofan í kjósendur. Þjóðverjar og Frakkar eru helstu lánardrottnar Grikklands.

Afstaða Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til gríska skuldafjallsins, sem nemur 180% landsframleiðslunnar, er að það sé ekki sjálfbært til lengri tíma. Evrópuríkin þurfi að stíga fram með metnaðarfyllri áætlun til að bjarga ríkinu.

Wolfgang Schauble, fjármálaráðherra Þýskalands, er á móti frekari afskriftum. Þær …
Wolfgang Schauble, fjármálaráðherra Þýskalands, er á móti frekari afskriftum. Þær yrðu afar óvinsælar heima fyrir. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert