Læknar mótmæla eftir að kveikt var í manni

Maðurinn hljóp logandi í gegnum mannfjöldann. Hann er með alvarleg …
Maðurinn hljóp logandi í gegnum mannfjöldann. Hann er með alvarleg brunasár á helmingi líkamans. AFP

Læknar tóku þátt í mótmælum á götum Venesúela í dag gegn stjórn Nicolas Maduro forseta, eftir að komið var með ungan mann, sem reiður múgur hafði kveikt í, til aðhlynningar á spítala.

Fjöldi þeirra sem látist hafa í mótmælum gegn stjórnvöldum í Venesúela hækkaði enn um helgina, en 48 hafa nú farist í mótmælum sl. 8 vikna. Hundruð til viðbótar hafa særst og þúsundir hafa verið settar í varðhald að sögn yfirvalda og mannréttindasamtaka.

Atburðurinn á sunnudag hefur þó vakið verulegan óhug, en þá var maður barinn, bensíni helt yfir hann og síðan kveikt í honum í vitna viðurvist í höfuðborginni Caracas.

Tvístraðist mannfjöldinn á götunum þegar maðurinn hljóp af stað alelda.

Með brunasár á helmingi líkamans og sex stungusár

Í fréttum sumra venesúelskra fjölmiðla er maðurinn sagður hafa verið þjófur, en stjórnvöld fullyrða að mótmælendur hafi ráðist á hann vegna þess að hann hafi verið stuðningsmaður Maduro.

Maduro greindi frá því í sjónvarpsviðtali að maðurinn héti Orlando Figuera og væri 21 árs gamall. Hann er á sjúkrahúsi með fyrsta og annars stigs brunasár á yfir helmingi líkama síns og er aukinheldur með sex stungusár.

Mótmælendur hella bensíni yfir manninn, eftir að hafa áður barið …
Mótmælendur hella bensíni yfir manninn, eftir að hafa áður barið hann og stungið með hnífi. AFP

Stjórnarandstaðan í Venesúela efnir til daglegra mótmælafunda þar sem þess er krafist að Maduro láti af völdum. Segir hún efnahagskreppuna í Venesúela og skort á matvælum, lyfjum og öðrum nauðsynjum vera forsetanum að kenna.

Maduro sakar stjórnarandstöðuna aftur á móti um að plotta valdarán gegn sér með stuðningi bandarískra stjórnvalda og segir kreppuna vera kapítalískt samsæri.

Ganga gegn eyðileggingu heilbrigðiskerfisins

Rúmlega 200.000 tóku þátt í mótmælum í Caracas og San Cristobal á laugardag og beitti lögregla táragasi gegn mótmælendum sem köstuðu grjóti og bensínsprengjum. Til átaka kom að nýju milli mótmælenda og lögreglu í dag og þá héldu læknar líka út á götur í mótmælaskyni til að vekja athygli á lyfjaskorti.

„Við höfum varla 3% af þeim lyfjabirgðum sem við þurfum,“ hefur AFP eftir Douglas Leon Natera, forseta læknasamtakanna. „Ástandið einkennist af ringulreið. Í dag göngum við gegn hungri og lyfjaskorti, gegn þessari eyðileggingu heilbrigðiskerfisins sem stjórnin hefur komið á.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert